Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pelé fluttur tímabundið aftur á gjörgæslu

Mynd með færslu
 Mynd: FIFA

Pelé fluttur tímabundið aftur á gjörgæslu

18.09.2021 - 03:31
Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pelé var tímabundið fluttur í dag á gjörgæsludeild Albert Einstein sjúkrahússins í Sao Paulo í Brasilíu. Hann segist sjálfur vera á góðum batavegi.

Í tilkynningu frá sjúkrahúsinu segir að Pelé hafi átt við öndunarerfiðleika að stríða og því hafi verið gripið til þess ráðs.

Pelé, sem er áttræður, er til meðhöndlunar á sjúkrahúsinu eftir skurðaðgerð, þar sem æxli var fjarlægt úr ristli.

Læknar segja líðan hans eftir atvikum góða og hann sjálfur skrifaði á samfélagsmiðla að honum væri smám saman að batna. Fjölskyldan hafi heimsótt hann og að hann brosi á hverjum degi. 

Pelé fæddist 23. október 1940 og var skírður Edson Arantes do Nascimento. Hann hefur glímt við líkamlega vanheilsu undanfarin ár og hefur þurft að dvelja talsvert á sjúkrastofnunum vegna þess.

Hann hefur aðeins eitt nýra en hitt var fjarlægt eftir að hann rifbeinsbrotnaði illa í knattspyrnuleik. Pelé hefur sömuleiðis þurft að notast við göngugrind undanfarin ár enda eru mjaðmir hans lúnar eftir langa ævi. 

Pelé lék fyrst með brasilíska landsliðinu 16 ára gamall og fagnaði þrisvar heimsmeistaratitli með félögum sínum, 1958, 1962 og 1970.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Pelé allur að braggast

Fótbolti

Pelé sendi Ronaldo hjartnæma kveðju vegna markametsins

Fótbolti

Maracana-völlurinn verður nefndur eftir Pelé

Erlent

Áttræður Pelé ánægður með andlega heilsu