Njarðvík bikarmeistari karla í körfubolta

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Njarðvík bikarmeistari karla í körfubolta

18.09.2021 - 21:36
Njarðvík varð í kvöld bikarmeistari karla í körfubolta í fyrsta sinn síðan árið 2005. Liðið vann Stjörnuna í gríðarlega skemmtilegum leik. Njarðvík átti sigurinn fyllilega skilið en liðið var með yfirhöndina nær allan leikinn.

Stjarnan og Njarðvík mættust í bikarúrslitum karla í körfubolta í kvöld. Leikurinn fór fram í Smáranum. Stjörnunni hefur vegnað vel í bikarnum á síðustu árum en liðið hefur unnið síðustu tvö úrslitaleiki. Njarðvík á sér einnig langa bikarsögu en liðið hefur alls landað titlinum átta sinnum, síðast árið 2005. 

Leikurinn var afar jafn í fyrsta leikhluta og þegar örfáar sekúndur voru eftir var staðan 26-26. Í þann mund sem lokaflautan gall setti Logi Gunnarsson niður þriggja stiga sko og Njarðvík var því þremur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. 

Enn var allt í járnum í upphafi annars leikhluta en þegar hann var hálfnaður var staðan 38-38. Þá tók hins vegar frábær kafli við hjá Njarðvík og þeir náðu níu stiga forystu þegar staðan var 45-54. Stjarnan náði aðeins að rétta sinn hlut fyrir hálfleik en þá munaði fimm stigum á liðunum, en staðan var 49-54 í hálfleik. 

Stjarnan byrjaði seinni hálfleik á því að minnka muninn niður í þrjú stig en þá hrukku Njarðvíkingar í gang. Dedrick Basile var óstöðvandi í þriðja leikhluta og átti stóran þátt í því að Njarðvík vann leikhlutann með 11 stigum og liðið var því með 16 stiga forystu fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. 

Stjarnan fór ágætlega af stað í fjórða leikhluta og þegar lítið var eftir af leiknum náðu þeir að setja pressu á Njarðvík. Þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum var staðan 80-86 fyrir Njarðvík en þá hafði Hilmar Smári skorað fimm stig í röð fyrir Stjörnuna. Stuttu síðar fékk Stjarnan gott tækifæri á að minnka muninn niður í þrjú stig en skot Hopkins geigaði á vítalínunni. Njarðvík nýtti næstu sókn og staðan þá orðin 82-90 og innan við mínúta til leiksloka. Stjarnan náði hins vegar að pressa Njarðvík vel síðustu sekúndurnar og minnkuðu muninn í fjögur stig 87-91. Þá var hins vegar of lítill tími eftir til að þær næðu að minnka muninn frekar og að lokum tryggði Njarðvík sér fjögurra  stiga sigur 93-97.

Dedrick Basile var stigahæstur bikarmeistaranna með 24 stig en hann tók einnig sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Hilmar Smári Henningsson stigahæstur með 24 stig. Hann tók einnig sex fráköst og gaf níu stoðsendingar.