Kári við TV 2: Kemur ekki verra afbrigði en delta

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
„Ég held að delta-afbrigðið verði mest smitandi afbrigði sem við munum sjá. Við ættum ekki að hafa áhyggjur af því að kórónuveiran eigi eftir að stökkbreytast og þróast í enn meira smitandi afbrigði en það,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við norsku sjónvarpsstöðina TV 2.

Delta-afbrigðið setti allt úr skorðum hér á landi. Búið var afnema allar sóttvarnaráðstafanir og bólusetja stóran hluta þjóðarinnar þegar afbrigðið hóf innreið sína í sumar. Það er fyrst núna sem farið er að sjá til lands í fjórðu bylgju faraldursins.

Í samtali við TV 2 segist Kári binda vonir við að bóluefnaframleiðendur séu að þróa betra bóluefni.  Þau sem verið sé að nota núna komi vissulega í veg fyrir alvarleg veikindi en hindri ekki að fólk smitist. „Við þurfum slíkt bóluefni. Ef það tekst getum við kvatt þessa veiru fyrir fullt og allt.“

Fram kemur í umfjöllun TV 2 að Ísland sé trúlega eina landið í heiminum þar sem öll jákvæð sýni hafa verið raðgreind. Íslensk erfðagreining búi því yfir mikilvægum upplýsingum um þróun kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Hann telur að veiran hafi nú þegar sennilega stökkbreyst 50 milljón sinnum og sú þróun eigi eftir að halda áfram. „Það er möguleiki að fáum afbrigði sem er jafn smitandi og delta en minna skaðlegt. Vírusar hafa bara áhuga á að smitast og skaða hýsilinn sem minnst. Þeir vilja bara lifa af.“ 

Kári segir að raðgreiningin hafi komið í veg fyrir frekari útbreiðslu smita hér á landi. Aðferð Íslands hafi vakið heimsathygli. „Ég er nánast viss um að í næsta heimsfaraldri eiga öll lönd eftir að gera þetta.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV