Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íslands- og bikarmeistari með sitthvoru liðinu

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Íslands- og bikarmeistari með sitthvoru liðinu

18.09.2021 - 19:33
Helena Sverrisdóttir, fyrirliði Hauka, náði því í dag að verða bæði bikarmeistari og Íslandsmeistari sama tímabilið en þó með sitt hvoru liðinu. Hún sagði það vera skrítna tilhugsun en frábært að vera komin aftur í uppeldisfélagið og byrja á því að vinna stóran titil.

Að sögn Helenu byrjaði Haukaliðið nokkuð hægt í dag en vörnin hafi svo smollið. „Við byrjuðum svolítið hægt en vörnin okkar var fín þarna í öðrum og þriðja leikhluta. Varnarleikurinn var bara flottur,” segir Helena. 

Hún hrósaði einnig liði Fjölnis sem var að spila til úrslita í fyrsta sinn. „Við náðum þessu upp í fimmtán, við náðum þessu aldrei lengra. Þær eiga hrós skilið. Þær voru að setja fullt af stórum skotum og héldu sig vel inn í leiknum,” segir Helena.

Mynd: RÚV / RÚV

Tinna Guðrún Alexandersdóttir gekk til liðs við Hauka fyrir tímabilið og var að vonum ánægð með sigurinn. „Þetta var geggjað. Ekkert líkt þessu,” segir Tinna áður en hún fékk væna vatnsgusu yfir sig.

Hún segir auðvelt að koma ný inn í þetta lið Hauka. „Ég er að koma ný inn í liðið og það tóku allir ótrúlega vel á móti mér. Auðvelt að koma inn í þetta lið,” segir Tinna. 

Mynd: RÚV / RÚV

 

Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir átti frábæran leik fyrir Fjölni í dag. Hún segir að þetta hafi verið fínn leikur af hálfu Fjölnis en liðið geti spilað enn betur. „Við komum inn í leikinn aftur og endum hann vel, byrjuðum líka vel. En það var ekki nógu mikill tími eftir,” segir Emma Sóldís en Fjölnis liðið fór vel af stað og hleypti svo Haukum aldrei mjög langt frá sér. 

Hún var að spila sinn fyrsta úrslitaleik með meistaraflokki en fór sjálf nokkrum sinnum í úrslitin með yngri flokkum. Hún segir að sviðið núna sé þó klárlega stærra. Hún var þá helst ósátt með varnarleik Fjölnis í dag á þeim kafla sem Haukar sigldu fram úr. „Vorum ekki nógu ákveðnar í vörninni þegar við missum þetta niður. En margt fínt annars,” segir Emma Sóldís.