Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Hver banaði saklausum börnum?“

18.09.2021 - 19:30
Mynd: AP / AP
Aðstandendur tíu almennra borgara, sem voru myrtir í Kabúl í drónaárás Bandaríkjahers í lok ágúst, vilja að haldin verði réttarhöld. Herinn viðurkenndi í gær að árásin hafi verið mistök. Sjö börn voru á meðal fórnarlambanna, það yngsta tveggja ára.

Þann 29. ágúst gerði Bandaríkjaher sína síðustu árás í Afganistan áður en hann hvarf á braut eftir tuttugu ára hersetu í landinu. Bifreið, sem Bandaríkjamenn sögðu hlaðna af sprengjuefni, var sprengd í loft upp. Talið var að maðurinn sem árásin beindist að hefði tengst við ISIS-K, Khorasan-héraðs arm samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Aðstandendur hans komu fram í viðtölum strax eftir árásina og sögðu það ekki rétt, tíu saklausir borgarar hefðu farist í árásinni. 

Bandarísk stjórnvöld hófu þá rannsókn á málinu og seint í gær, tæpum þremur vikum síðar, voru niðurstöðurnar ljósar. „Nú er ég sannfærður um að allt að tíu almennir borgarar, þar af allt að sjö börn, létust í árásinni. Að auki teljum við nú ólíklegt að bifreiðin eða þau látnu hafi tengst samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki eða verið bein ógn við Bandaríkjaher,“ sagði Frank McKenzie, hershöfðingi á fundi með fréttamönnum. Hann bað aðstandendur afsökunar og sagði Bandaríkjaher ætla að einsetja sér að læra af þessum hræðilegu mistökum. „Árásin var gerð í þeirri trú að hún myndi fyrirbyggja yfirvofandi ógn við herlið okkar og fólkið á flugvellinum,“ sagði McKenzie. 

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Vettvangur árásarinnar við heimili Ahmadi fjölskyldunnar.

Zamari Ahmadi hafði lengi starfað fyrir bandarísk hjálparsamtök. Árásin var gerð þegar hann kom keyrandi heim frá vinnu, börn hans og börn bróður hans tóku fagnandi á móti honum og settust inn í bílinn áður en hann bakkaði inn í stæði við heimili sitt. Þau létust öll ásamt bróður Zamari og fullorðnum bróðursyni hans sem voru nálægt bifreiðinni. Yngsta fórnarlambið var tveggja ára stúlka. 

Fjölskyldan hefur frá byrjun krafist réttlætis og afsökunarbeiðni. Þá hafa þau beðið um aðstoð við komast burt frá Afganistan. „Hver stóð fyrir þessu? Hver banaði saklausum börnum hérna, m.a. dóttur minni og fjölskyldu? Ég vil að Bandaríkin haldi sanngjörn réttarhöld og finni þann seka, svo hægt sé að refsa honum,“ sagði Emal Ahmadi, bróðir Zamari, í viðtali í dag. Hann missti tveggja ára gamla dóttur sína í árásinni. McKenzie, hershöfðinginn sem segist bera fulla ábyrgð á árásinni segir til skoðunar að greiða fjölskyldunni bætur. 

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Emal Ahadi segir ekki nóg að biðjast afsökunnar.
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV