Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ein frægasta týnda kvikmynd Íslandssögunnar

Mynd: Sóley / Lee Lynch

Ein frægasta týnda kvikmynd Íslandssögunnar

18.09.2021 - 09:00

Höfundar

Kvikmyndin Sóley eftir myndlistarkonuna Rósku og eiginmann hennar Manrico Pavelottino verður sýnd í fyrsta skipti í langan tíma í Bíó Paradís um helgina. Myndin hefur verið ófáanleg um langa hríð en unnið hefur verið hörðum höndum seinustu ár við að koma eina eintakinu sem vitað er um í heiminum í sýningarhæft ástand.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Næsta sunnudagskvöld verður ein frægasta týnda kvikmynd Íslandssögunnar, Sóley frá 1982 sýnd í fyrsta skipti í langan tíma í Bíó Paradís. Kvikmyndin, sem er eftir listakonuna heitnu Rósku og eiginmann hennar Manrico Pavelottino, hefur verið ófáanleg í gegnum tíðina en kvikmyndagerðarmennirnir og hjónin Lee Lynch og Þorbjörg Jónsdóttir hafa unnið hörðum höndum seinustu tvö ár við að endurgera myndina. Lee og Þorbjörg, sem er frænka Rósku, fengu hjálp frá Kvikmyndasafninu og Myndlistarsjóði, efndu til söfnunar á Karolina Fund og settu einnig sitt eigið fjármagn í þetta verðuga verkefni.

Róska var róttækur brautryðjandi í listasenu Íslands en nú er ný kynslóð að uppgötva verk hennar og feril. Svo skemmtilega vill til að endurkoma Sóleyjar helst í hendur við yfirgripsmikla sýningu á verkum hennar sem staðið hefur yfir í Listasafni Árnesinga í Hveragerði síðan í sumar. Við slógum á þráðinn til hjónanna sem sögðu okkur meira frá verkefninu.

Þorbjörg og Lee segja að áhugi á verkum Rósku hafi aukist á seinustu árum og að hann haldist í hendur við stemninguna í samfélaginu. Þau segja Sóley vera einstakan merkisgrip en myndin er mjög pönkuð og gerð alfarið á eigin spýtur. Þetta tilraunakennda viðhorf til kvikmyndagerðar er kannski vinsælla nú á dögum en það var þegar myndin kom út.

Negatífan að Sóley er týnd en eina eintakið í heiminum er sýningareintak, sem hefur nú verið gert upp. Filman var illa farin, það var mygla á henni og alls kyns gallar á textanum. Hjónin halda enn úti voninni að hægt verði að finna upprunalegu negatífuna en mögulega er hún enn falin einhvers staðar á Ítalíu. Þau vona að filman dúkki upp eftir því sem þau fara að sýna Sóleyju í kvikmyndahúsum erlendis.

Samkvæmt Þorbjörgu gerir það verkefnið enn mikilvægara, þar sem þetta er eina eintakið sem vitað er um og þess vegna þarf að endurgera það og varðveita.

Lee segir myndina vera hluta af endurreisnarhreyfingu ásatrúar sem átti sér stað á hippatímanum en Róska var góð vinkona Jörmundar Inga Hansens, fyrrverandi allsherjargoða, sem lék einn álfanna í Sóleyju. Samkvæmt Jörmundi er Sóley eins konar úttekt á öllum þeim sem syntu á móti straumnum í menningu Íslands á þeim tíma. Flestir þessara menningarvita léku eða komu að myndinni á einhvern hátt.

Róska og eiginmaður hennar Manrico fengu einhvern stuðning frá Kvikmyndasjóði en eins og sjálfstæðir kvikmyndagerðarmenn eiga til að gera þá voru einhverjar skuldir sem hrönnuðust upp í kringum myndina, og síðan græða svona listrænar kvikmyndir oft lítið sem engan pening. Sóley var gefin út sömu helgina og heimildarmyndin Rokk í Reykjavík, sem hefur kannski stolið senunni að einhverju leyti. 

Sóley fékk misjafna dóma en samkvæmt Þorbjörgu sagði Róska í sjónvarpsviðtali eitt sinn að myndin hefði ekki fengið nógu misjafna dóma, sem er ansi gott svar en Lee telur þetta viðhorf hennar minna mjög á viðmót ítölsku kvikmyndasenunnar - þetta gæti verið eitthvað sem Pasolini hefði sagt. 

Lee segir að mögulega sé upprunalega negatífan enn geymd í einhverri hirslu á Ítalíu, þar sem einhverjar skuldir gætu hafa loðað við myndina. Það var víst orðrómur á sínum tíma að Róska og tökulið hennar hefði skilið eftir fjölda ógreiddra pylsureikninga á ýmsum bensínstöðvum í kringum Ísland en Þorbjörg segir þetta líklega bara vera mýtu.

Þorbjörg segir að Róska hafi verið svöl og skemmtileg frænka sem bjó erlendis og reykti mikið af sígarettum. Hún bjó lengi á Ítalíu en dvaldi á Íslandi seinustu ár lífs síns. Þótt hún hafi verið dularfull kona þá var hún líka eftir allt saman bara frænka hennar.

Óhætt er að segja að Róska hafi verið umdeild og ögrandi listakona, sérstaklega pólitíkin hennar sem var mjög róttæk en samkvæmt Lee eru kannski einhverjir frá hennar kynslóð með óbragð í munninum vegna fjárhagsvandræðanna í kringum myndina. Hins vegar hafa nýjar kynslóðir meiri fjarlægð frá Rósku, þannig yngra fólk kann að meta verk hennar út frá eigin forsendum. Hann hafi sýnt ungum nemendum sínum myndina og þeim hafi líkað hún mjög vel, sem kom honum á óvart.

Sóley er utangarðslistaverk, eitthvað sem er vinsælt hjá nýju kynslóðinni. Hann telur margar íslenskar kvikmyndir reyna að herma eftir Hollywood en þegar ungt fólk sér eitthvað meira frumlegt, þá sér það um leið að þetta er stórmerkilegur hluti af sögunni.