Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

COVID-smitaðir þurfa að sýna listabókstaf í lokuðum bíl

18.09.2021 - 09:47
Mynd með færslu
Í sérstakri kjördeild fyrir fólk í sóttkví í forsetakosningunum 2020. Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Kjósendur sem verða í sóttkví eða einangrun á kjördag verður heimilt að greiða atkvæði á sérstökum utankjörfundarstöðum.

Kjósandi þarf að koma einn í bíl á kjörstaðinn og má ekki opna dyr bílsins eða glugga og getur þar af leiðandi ekki fengið kjörgögn. Þess í stað þarf kjósandinn að upplýsa kjörstjóra um hvaða framboð hann vilji kjósa, með því til dæmis að sýna blað með listabókstaf framboðs eða öðrum skýrum hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Þá er þeim sem eru í sóttkví eða einangrun á kjördag einnig heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað sínum, að fengnu leyfi frá sýslumanni, ef þeir komast ekki á kjörstaðinn. Synja má kjósanda um að greiða atkvæði á dvalarstað telji sóttvarnayfirvöld að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu. Sú ákvörðun er endanleg.

Atkvæðagreiðsla á sérstökum utankjörfundarstað má hefjast núna á mánudag, 20. september, og verða kjörstaðirnir auglýstir á vefsíðunni syslumenn.is.  

Aðspurð segist Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, ekki geta svarað því hvort ekki hefði verið hægt að leyfa þessum hópi að kjósa rafænt. „Ég get ekki svarað því. Þetta eru reglur frá ráðuneytinu og það eru ekki heimildir í lögunum um rafrænar kosningar.“
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV