15 ár og enn að reyna að komast inn í íslenskt samfélag

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Um 40% fólks á atvinnuleysisskrá er af erlendum uppruna. Sérfræðingar vilja að stjórnvöld hugi betur að að íslenskukennslu fyrir innflytjendur, enda aftri tungumálið fólki því að fá framgang á vinnumarkaði.

„Ég hef verið hér í 15 ár og ég held ég er enn að reyna að koma alveg inn í íslenskt samfélag eftir 15 ár,“ segir George Haney, sem er frá Þýskalandi. Hann var fljótur að læra íslensku, sem hjálpaði mikið að hans sögn. „Það væri mjög gott líka að fá meiri skilning hversu erfitt það er að læra tungumálið, fyrir suma gengur það bara ekki. Því miður.“

Kalla eftir eftir betri íslenskukennslu

Betri og aðgengilegri íslenskukennsla er einmitt atriði sem mætti bæta á næsta kjörtímabili að mati þeirra sem starfa með innflytjendum. „Gera hana markvissari og auka gæði og auka aðgengi sömuleiðis,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri á hjálpar- og mannúðarsviði RKÍ.

„Það þarf að huga mjög vel að íslenskukennslu, það er mjög mikið ákall hjá fólki af erlendum uppruna að þeirra aðgangur að samfélaginu er að mæta ákveðinni hindrun vegna þess að íslenskukennsla er ekki að skila þeim nægilega vel inn í samfélagið,“ segir Nicole Leigh Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Nicole Leigh Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs

Innflytjendum hefur fjölgað mikið hér á landi síðastliðna áratugi. Á síðustu tíu árum hefur fjöldi þeirra nær tvöfaldast og nú eru erlendir ríkisborgarar um 14% þjóðarinnar. „Það má deila um hvort við höfum verið nægilega reiðubúin til að gefa í hvað varðar þjónustu við innflytjendur. Það er þá verkefni næsta kjörtímabils, að móta stefnu í málefnum innflytjenda,“ segir Atli.

„Eitthvað ekki að funkera rétt“

Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá í síðasta mánuði var 39%. Um helmingur atvinnulausra innflytjenda eru Pólverjar. „Það segir okkur að það er eitthvað sem er ekki að fúnkera rétt. Það hefur ekki verið tekið nógu vel á og það er kominn tími til að við gerum það vegna þess að fólksfjölgun felst ekki í því að fæða fleiri börn. Öflug fólksfjölgun er þegar fólki sem flytur hingað er gert kleift að taka virkan þátt í samfélaginu og uppbyggingu, efnahag, menntakerfi og vinnumarkaði,“ segir Nichole.

Störf innflytjenda eru oft bundin við ferðaþjónustu, byggingariðnað eða umönnun. „Þau hafa ekki náð nægilega mikilli íslensku sem nýtist þeim til að fara upp úr þessum starfsstéttum og færa sig áfram á vinnumarkaði. Og hvað eigum við að gera? Hvernig eigum við að koma þeim inn í aðra starfsstétt: er íslenskukennsla ein leið? Er þetta að endurskoða nám og fyrri reynslu fólksins á vinnumarkaði til að það nýtist þeim betur.“

Aðlaga kerfið að fólkinu en ekki öfugt

Brottfall úr framhaldsskólanámi er meira meðal nemenda af erlendum uppruna en annarra nemenda. Við því hefur verið reynt að bregðast með leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skólum og drögum að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningar bakgrunn. 

Nichole segir að margt megi bæta fyrir börn innflytjenda. „Það eru of fáir nemendur af erlendum uppruna sem hafa komið í gegnum skólakerfið hér sem eru að skila sér upp í háskólana. Við þurfum að aðlaga kennsluaðferðir að þessum nemendahóp, ekki aðlaga fólk að kerfinu sem hefur svolítið verið leiðin hingað til. Með því að nota sérkennslu til að bæta íslensku. Frekar ætti að breyta íslenskukennslu fyrir þá sem tala íslensku sem annað mál.“

18 flóttamenn frá Afganistan

Svo eru það málefni flóttafólks og þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Rúmlega 200 hafa komið hingað sem kvótaflóttamenn á kjörtímabilinu, að meðtöldum fjölskyldunum sem komu hingað til lands frá Sýrlandi í síðustu viku, að því er segir í skriflegum svörum frá Félagsmálaráðuneytinu. Það eru fyrstu kvótaflóttamennirnir sem hingað koma frá því að heimsfaraldurinn braust út og þau fara í gegnum samræmda móttöku flóttafólks sem var sett upp á kjörtímabilinu. Stefnt var að því að taka á móti 85 flóttamönnum í fyrra en 100 í ár. 

Í lok ágúst samþykkti ríkisstjórnin að taka á móti 120 flóttamönnum frá Afganistan vegna ástandsins þar í kjölfar valdatöku Talibana. Þrjátíu og þrír eru komnir til landsins en 15 þeirra eru ýmist með dvalarleyfi eða ríkisborgararétt hér.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri á hjálpar- og mannúðarsviði RKÍ.

Kerfið ágætt en ekki fullkomið

Atli Viðar hjá Rauða krossinum segir að um 20-30% umsókna um alþjóðlega vernd séu samþykktar. Málsmeðferðartími hefur verið styttur á kjörtímabilinu, í kjölfar fjölmennra mótmæla til stuðnings flóttafjölskyldum sem vísa átti úr landi. „Það má stytta málsmeðferðartímann enn frekar. Það má bæta ýmislegt hvað varðar þjónustu við umsækjendur meðan á málsmeðferð stendur. Heilt yfir myndi ég segja að kerfið væri ágætt en alls ekki fullkomið,“ segir Atli.

Á síðasta ári fengu í kringum 630 alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum, 100 fleiri en árið á undan. Verndarmál eru á borði dómsmálaráðuneytis en félagsmálaráðuneytið sér um þá sem eru komnir með vernd. „En það er líka til annars konar fyrirkomulag þar sem eitt ráðuneyti gæti haldið utan um allt. Það mætti rökstyðja að það mætti gera ferla skilvirkari með þeim hætti og ódýrari fyrir alla. Það væri áhugavert ef stjórnvöld myndu skoða það á komandi kjörtímabili,“ segir Atli.

Pólverji eða Þjóðverji?

En hvernig tökum við sem samfélag á móti þeim sem vilja koma hingað til að vera? „Það er munur á því hvaðan fólk kemur,“ segir Nichole.

„Það skiptir stóru máli fyrir fólk að ég sé Þjóðverji en ekki Pólverji. Mér var það sagt í andlitið: Ha? Ertu frá Þýskalandi? Ég hélt að þú værir Pólverji. Þetta er erfitt fyrir fólk sem er á hinum enda fordómanna,“ segir George Haney.