Vörðu minnst 30 milljónum í prófkjör í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Fimm frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vörðu samtals 30 milljónum í prófkjörsbaráttu sína. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, sem bæði sóttust eftir að verða oddviti flokksins í höfuðborginni, skera sig úr þótt það sé ekki endilega ávísun á gott gengi í prófkjöri að eyða miklum peningi.

Þetta er hægt að lesa útúr tölum á vef Ríkisendurskoðunar. 

Kostnaður við prófkjör Áslaugar Örnu annars vegar og Guðlaugs Þórs hins vegar nam um 20 milljónum. Áslaug varði 8,7 milljónum í prófkjör sitt en Guðlaugur Þór 11,4 milljónum. 

Slagurinn milli þeirra tveggja var nokkuð harður og ummæli sem utanríkisráðherra lét falla í hófi með stuðningsmönnum sínum vöktu nokkra athygli.

Kjartan Magnússon, sem er 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður,  varði 2,3 milljónum í prófkjör sitt og Friðjón R. Friðjónsson varði 4,2 milljónum. Hann er í fjórða sæti í Reykjavík suður. Hildur Sverrisdóttir, sem er í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavík suður, varði 3,4 milljónum. 

Ríkisendurskoðun hefur ekki birt hver kostnaður við prófkjör Diljár Mist Einarsdóttur var en hún er í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður.

Athygli vekur að kostnaður við framboð  Birgis Ármannssonar, Sigríðar Andersen og Brynjars Níelssonar var undir viðmiðunarmörkum sem eru 550 þúsund. Birgir er í þriðja sæti í Reykjavík suður, Brynjar hætti við að hætta og tók þriðja sætið í Reykjavík norður þar sem Sigríður er í heiðurssæti.

Ríkisendurskoðun hefur einnig birt yfirlit yfir kostnað frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í öðrum kjördæmum. Þannig var kostnaður við framboð Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem er oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, rúmar tvær milljónir. 

Í Suðvesturkjördæmi hafa fjórir frambjóðendur skilað uppgjöri.  Kostnaður við prófkjör Bjarna Benediktssonar var undir 550 þúsund. Framboð héraðsdómarans Arnars Þórs Jónssonar nam 4,7 milljónum. Hann er í fimmta sæti.  Bryndís Haraldsdóttir varði tæpum tveimur milljónum  en hún er í þriðja sæti. Kostnaður við framboð Jóns Gunnarssonar, sem er í öðru sæti á listanum, var 4,5 milljónir og Óli Björn Kárason varði um 1,3 milljónum króna. Hann er í fjórða sæti.

Þátttakendur í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir komandi þingkosningar hafa flestir skilað yfirlýsingu um að kostnaður við framboð þeirra hafi verið undir 550 þúsund krónum og það sama gildir um þá sem tóku þátt í persónukjöri Pírata.  

Upplýsingar um fimm frambjóðendur í forvali VG eru birtar á vef Ríkisendurskoðunar. Þeir skiluðu allir yfirlýsingu um að kostnaðurinn við framboð þeirra hefði verið undir 550 þúsund. Sama á við um þá fimm frambjóðendur sem hafa skilað upplýsingum um framboð sitt í flokksvali Samfylkingarinnar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV