Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vonir bundnar við norðurljós og eldgos

17.09.2021 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Óvissa ríkir um veturinn að sögn formanns Leiðsagnar stéttarfélags leiðsögumanna. Skólahópar sem komið hafa á þessum tíma í Íslandsferðir hafa ekki bókað í sama mæli og endranær en vonir eru bundnar við norðurljós og eldgos.

Friðrik Rafnsson formaður Leiðsagnar stéttarfélags leiðsögumanna segir
sumarið hjá leiðsögumönnum hafa verið nokkuð gott. Góður kippur hafi verið í ferðaþjónustu í júlí og ágúst og júní hafi einnig farið vel af stað víða þótt breyting hafi orðið til batnaðar þegar losað var um hömlur. Yfirleitt dragi úr eftirspurn með haustinu en nú sé breytingin meiri en ella. 

 „Já ég hef nú heyrt það. Það er talsvert að minnka og jafnvel eitthvað af ferðum sem hafa verið að detta út meðal annars vegna þess að við lentum á rauðum lista hjá Bandaríkjamönnum og þá hikar fólk við að koma.En á móti kemur að nú fer norðurljósavertíðin hafin og eins er gosið á Reykjanesskaga." 

Bandaríkjamenn eru fjölmennir í hópi  ferðamanna þetta sumar að sögn Friðriks. Horfur um skipakomur næsta sumar eru góðar. Skemmtiferðarskip koma væntanlega á mikilli siglingu inn í ferðaárið 2022. 

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir