Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Við búum í sveit, það er það sem bjargar okkur“

17.09.2021 - 10:59
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Hópsmit sem kom upp í grunnskólanum á Hofsósi í síðustu viku setur smalamennsku og réttir um helgina í uppnám. Fjölskylda sem nú er heima í einangrun með þúsund fjár á fjalli segir hundfúlt að missa af göngum þetta árið.

Allur grunnskólinn í sóttkví

Það var um síðustu helgi sem smit tóku að greinast í grunnskólanum á Hofsósi. Smitið virtist nokkuð útbreitt og því var skólanum lokað og allir nemendur og kennarar settir í sóttkví. Þeirra á meðal fjölskyldan á Þrastarstöðum. Rúnar Þór Númason, sauðfjárbóndi hefur verið í sóttkví ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum síðan á laugardaginn. „Við höfum verið í einangrun hérna síðastliðna daga. Eða sóttkví heitir það nú svona því við vorum ekki sýkt öll fyrst, svo kom það í ljós að Valgerður var sýkt. Það kemur í ljós á laugardaginn var,“ segir Rúnar. 

Leiðist ekki mikið

Þrátt fyrir að geta ekki mætt í skólan segja krakkarnir að þeim líði vel á bænum.  „Okkur leiðist ekki mikið, við búum í sveit, það er það sem bjargar okkur,“ segir Valgerður Rakel Rúnarsdóttir.

Erfiður tími 

Þó svo að það sé aldrei góður tími til að greinast með veiruna má segja að tímasetningin sé einstaklega slæm - því um helgina eru fyrirhugaðar göngur og réttir. „Þetta var náttúrlega hundfúlt, þetta er náttúrlega erfiður tími. Sauðfjárbændur eru að smala núna, við erum með yfir þúsund fjár á fjalli og mjög erfitt að eiga við þetta,“ segir Rúnar. 

Óvissa um framhaldið

Margir verða skimaðir á morgun og að því loknu verður tekin ákvörðun um hvernig göngum og réttum verður háttað um helgina. Það er samt ljóst að þetta verður með óhefðbundnu sniði þetta árið.  „Þetta er auðvitað mjög skemmtileg helgi hjá okkur, þetta hefur verið 20-30 manna helgi og við höfum gert dálítið mikið úr þessu, bæði skemmt sér vel í réttunum og svo hefur fullorðna fólkið fengið sé aðeins í glas um kvöldið og fram á nótt en þetta er náttúrlega, það verður ekki neitt úr þessu núna.“