Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Valsarar á fullri ferð

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Valsarar á fullri ferð

17.09.2021 - 10:13
Íslandsmót karla í handbolta fór af stað í gærkvöldi með þremur leikjum. Íslandsmeistarar Vals hófu titilvörnina á Seltjarnarnesi gegn Gróttu.

Valsarar hafa farið mikinn í haust, eru komnir í undanúrslit bikarkeppninnar og framundan eru leikir gegn þýska stórliðinu Lemgo í Evrópudeildinni. 

Þrátt fyrir að eiga að vera lengra komnir en Gróttumenn var fyrri hálfleikurinn í gærkvöldi í járnum. Valur leiddi þó í hálfleik með eins marks mun, 11-10. Valur bætti við forskot sitt og komst þremur mörkum yfir í 16-13. Seltirningar komu þó til baka og Birgir Steinn Jónsson jafnaði í 18-18 þegar tólf mínútur voru eftir. Björgvin Páll Gústavsson varði mikilvægt skot í marki Vals þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, skoraði í kjölfarið og kom Val í 22-20. Gróttumenn reyndu hvað þeir gátu að jafna en höfðu ekki erindi sem erfiði. Valur vann nauman eins marks sigur, 22-21.

Nýliðar Víkings voru öflugir gegn ÍBV í Víkinni. Víkingur hafði tveggja marka forskot í leikhléi, 12-10. Eyjamenn með skyttuna Rúnar Kárason fremstan í flokki, sem skoraði 10 mörk voru þó sterkari í seinni hálfleiknum, sneru taflinu sér í vil og unnu leikinn 30-27.

Hinir nýliðarnir í deildinni eru HK-ingar. Þeir tóku á móti KA í Kórnum í Kópavogi. Óðinn Þór Ríkharðsson og Einar Rafn Eiðsson sem báðir komu til KA fyrir tímabilið skoruðu sex mörk hvor og urðu markahæstir Akureyringa sem unnu þriggja marka sigur, 28-25.

Afturelding og Stjarnan mætast í kvöld og úrvalsdeild kvenna hefst svo á morgun.