Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Úrræðaleysi í þjónustu við börn með alvarlegan geðvanda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur segir ákveðið úrræðaleysi í þjónustu við börn með alvarlegan vanda. Sveitarfélögum þyki nokkuð skorta upp á að ríkið uppfylli úrræði sem þeim ber samkvæmt lögum. Hún segir skiljanlegt að foreldrar leiti aðstoðar víða en hins vegar sé það svo að vandi veikra barna sé ekki alltaf barnaverndarmál. 

Í sjónvarpsfréttum í gærkvöld lýsti faðir ellefu ára drengs með flóknar geðraskanir miklum vanda við að fá viðunandi þjónustu fyrir drenginn. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, hafi aðstoðað drenginn en drengurinn þurfi 4. stigs þjónustu að mati geðlæknis en BUGL geti aðeins veitt 3. stigs þjónustu. 

Faðirinn gagnrýndi Barnavernd fyrir að aðhafast ekkert í máli drengsins, bæði lögregla og BUGL hafi fengið höfnun frá Barnavernd. Katrín Helga Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur segist ekki vita hvaða mál þetta er og geti ekki heldur tjáð sig um einstök mál:

„Börn sem glíma við geðrænan vanda, einhvers konar þroska- eða hegðunarvanda, það er alls ekki sjálfkrafa staðan þannig að slík mál þurfi að vera unnin sem barnaverndarmál.“

Katrín Helga segir oftast mögulegt að veita þjónustuna í nærumhverfi eins og í þjónustumiðstöðvum og skólum með aðstoð frá BUGL 

„Það er í raun og veru ekki fyrr en það þarf að fara að beita þessum alvarlegu úrræðum sem að barnaverndarnefndirnar búa yfir, vistun utan heimilis, einhvers konar þvingun gagnvart foreldrunum eða barninu, þá að sjálfsögðu er mál orðið barnaverndarmál.“

Hún segir Barnavernd skynja og skila að mikið úrræðaleysi sé í gangi í málefnum barna með alvarlegar geð-, þroska og hegðurnarraskanir. 

„Það er erfið staða á BUGL og staða foreldra og barnanna er oft mjög erfið og eðlilega leitar þá fólk í allar þær leiðir sem hægt er að leita þar á meðal til okkar.“

Fyrr á árinu lýstu stjórnendur barnaverndar á höfuðborgarsvæðinu í skýrslu miklum vanda barna sem þurfa mikla þjónustu. Talið er að 30 börn á landinu þurfi umönnun tveggja til þriggja starfsmanna allan sólarhringinn alla daga ársins. Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar segir í grein fyrir stuttu að fjármagn sem ríkið veiti til málefnisins nemi fjórðungi af kostnaðinum sem sveitarfélögin beri. Kostnaðurinn nemi tveimur milljörðum króna á ári. Katrín Helga tekur undir þetta. 

„Við teljum skorta á þau úrræði sem ríkið á að vera að veita þar samkvæmt lögum. Það er nú bara svona ein af þessum kartöflum og málum sem eru í endalausri umræðu milli ríkis og sveitarfélaga. Og vont auðvitað þegar börn og fjölskyldur líða fyrir það.“