Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir í öndunarvél með COVID-19 - tvö börn á sjúkrahúsi

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Tveir liggja á gjörgæsludeild Landspítala með COVID-19 og eru báðir í öndunarvél. Alls eru níu sjúklingar á spítalanum með kórónuveiruna, þar af tvö börn. 352 eru í eftirliti hjá COVID-göngudeildinni, einn er metinn rauður og ellefu gulir en það þýðir að þeir þurfa nánara eftirlit.

Þetta kemur fram á vef spítalans.

Þar segir enn fremur að þessar tölur verði næst uppfærðar á miðvikudaginn í næstu viku.

Landspítalinn hefur verið færður af hættustigi niður á óvissustig sem er fyrsta af þremur viðbragðsstigum spítalans.

Ný reglugerð um samkomutakmarkanir hefur tekið gildi. Nú mega 500 koma saman og 1.500 á svokölluðum hraðprófsviðburðum auk þess sem veitinga-og skemmtistaðir mega hafa opið til miðnættis.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV