Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þvældist inn í þetta mál af kjánaskap“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Verjandi Claudiu Sofiu Carvahlo, sakbornings í Rauðagerðismálinu, sakar lögreglu, ákæruvald og fjölmiðla um að hafa teiknað skjólstæðing sinn sem afbrotamanneskju í skipulagðri brotastarfsemi sem víli ekki fyrir sér að myrða mann. Raunveruleikinn gæti vart verið fjær sanni. „[Hún] þvældist inn í þetta mál af kjánaskap,“ og hafi ekki rennt í grun um að hún væri að gera eitthvað ólögmæt.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð verjanda Claudiu til Héraðsdóms Reykjavíkur. Hún neitar að hafa komið að morðinu á Armando Beqiri og í skýrslutöku fyrir dómi sagðist hún fyrst hafa frétt af ódæðinu í fjölmiðlum. 

Sagt upp eftir að nafn hennar birtist í fjölmiðlum

Í greinargerðinni freistar verjandi hennar að varpa ljósi á líf Claudiu hér á landi. Hún hafi komið hingað til lands frá Portúgal fyrir tíu árum, þá 21 árs gömul og einstæð móðir. Hún hafi fyrir þremur árum klárað sveinspróf til matreiðslumanns þrátt fyrir langa sögu um námsörðugleika í heimalandi sínu.  

Verjandinn segir hana heiðarlega manneskju sem hafi ekki svo mikið sem fengið hraðaksturssekt. „Slíkur einstaklingur tekur ekki upp á því einn daginn, með fólki sem hún hefur þekkt í nokkra mánuði, að myrða mann .“

Verjandinn lýsir því hvernig málið hafi haft mikil áhrif á líf skjólstæðings hans.  Henni hafi verið sagt upp störfum í vinnu sinni eftir að nafn hennar birtist í fjölmiðlum og sú staða sé komin upp að hún hafi þurft að sækja um atvinnuleysisbætur. Það hafi verið henni erfitt enda alltaf verið í vinnu og aukavinnu og verið bæði dugleg og samviskusöm.

Fannst Angjelin eiga inni hjá sér greiða

Verjandinn lýsir því hvernig Claudia hitti Angjelin Sterkaj eftir erfið sambandsslit.  Hún hafi notið þeirrar athygli sem henni var sýnd enda hafi Angjelin verið sjarmerandi og viðkunnanlegur maður. Hann hafi verið góður við dóttur hennar og hún því leitað í félagsskap hans.  Verjandinn bendir samt á að þau hafi aðeins verið búin að þekkja hvort annað í átta mánuði þegar morðið var framið.

Verjandinn segir Claudiu hafa þvælst inn í þetta mál af kjánaskap, eins og hann orðar það. Hún sé hvatvís, greiðasöm og hugsi ekki alltaf hlutina til enda.  Hún hafi því ekki séð neitt athugavert við að láta Angjelin vita þegar tiltekinn bíll lagði af stað. „Hann hafði oft reynst henni mjög vel og henni fannst hann eiga inni hjá sér greiða.“

Í greinargerðinni er sömuleiðis að finna alvarlegar athugasemdir við  samantektarskýrslu lögreglu um málið. Verjandinn telur að þar sé að finna rakalausar fullyrðingar, rangar ályktanir, sleggjudóma og ranga lögfræði. 

Hlutir gerðir tortryggilegir

Hann sakar lögreglu um að gera atvik, sem eigi sér eðlilegar skýringar,  tortryggileg og málatilbúnaður gagnvart skjólstæðingi hans beri ekki með sér að hlutlægnisskyldu hafi verið gætt heldur þvert á móti.  Lögregla gangi jafnvel svo langt að halda fram helberum ósannindum.

Til að mynda hafi hún staðhæft að Claudia hefði keypt fjóra farsíma og áttu þessi meintu símakaup að sýna fram á þátttöku hennar í skipulagðri brotastarfsemi. Eftir mikla eftirfylgni hafi komið í ljós að hún keypti aldrei fjóra farsíma heldur bara einn sem hún eigi enn þá.

Verjandinn gerir einnig alvarlegar athugasemdir við það þegar lögreglan fór með Claudiu í vettvangsferð  án verjanda og túlks í byrjun mars. Þetta hafi verið skýrslutaka í hljóð og mynd og þar hafi henni verið tjáð að hún gæti hringt í þáverandi verjanda sinn úr síma lögreglu, úr lögreglubifreiðinni með lögreglumönnum. „Hlýtur það að vera einsdæmi í sögu morðrannsókna síðan hið fræga Geirfinnsmál kom upp.“

Verjandanum og lögreglumanni sem kom fyrir dóminn í vikunni greindi á um það hvort Claudia talaði nógu góða íslensku til að geta vera án túlks í umræddri skýrslutöku. Lögreglumaðurinn taldi svo vera .  Claudia var með portúgalskan túlk í réttarhöldunum í vikunni.

Angjelin hafi ekki þurft einhverja aðstoð

Verjandinn segir að ákæruvaldið vilji dæma Claudiu fyrir morð af því hún hafi látið vita þegar tiltekinn bíll yfirgaf bílastæði.  Þessi kenning komi frá lögreglunni og hann muni ekki eftir að hafa séð „viðlíka öfugmæli í sakamáli.“ 

Fullyrðing lögreglu um að þáttur Claudiu hafi verið nauðsynlegur til að fremja mætti morðið séu svo álíka mikil öfugmæli. Angjelin Sterkaj hafi vitað nákvæmlega hvar Armando Beqiri átti heima, hvar hann væri að vinna, hvert hann færi eftir vinnu og hvenær hann kæmi vanalega heim. Hann hafi ekki þurft neina aðstoð við að hitta Armando og enn síður hafi það verið nauðsynlegur þáttur.

Skýrslutökum í Rauðagerðismálinu lauk í gær og hafa verjendur og saksóknari nú viku til að undirbúa munnlegan málflutning. Að honum loknum líða minnst fjórar vikur þar til dómur liggur fyrir í málinu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV