Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tæpur helmingur vill sömu ríkisstjórn áfram

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórnin heldur ekki, samkvæmt nýrri könnun Prósents, sem gerð var fyrir Fréttablaðið. Tæpur helmingur vill að núverandi ríkisstjórnarsamstarf haldi áfram. Könnunin var gerð dagana 13. til 16. september og rétt tæplega 1.500 tóku þátt.

Sjálfstæðisflokkur mælist með 21,3 prósenta fylgi, Samfylkingin 14,2 prósenta fylgi, Framsóknarflokkur tólf komma sex prósent, Viðreisn 11,6 prósent, Píratar 11,5 prósent og Vinstri græn tíu prósent. Sósíalistaflokkurinn fær 7,7 prósent, Miðflokkur 5,9 prósent, Flokkur fólksins 4,7 prósent og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hálft prósent. Hér má sjá umfjöllun Fréttablaðsins um könnunina. Ekki kemur þar fram hversu marga þingmenn fylgið myndi skila flokkunum. Blaðið hyggst fjalla frekar um könnunina í helgarblaðinu.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að hér á landi hafi stjórnmálin ekki enn brugðist við fjölgun flokka á Alþingi síðustu ár. Annars vegar væri hægt að fara finnsku leiðina, þar sem flokkum sem starfa saman í ríkisstjórn hefur fjölgað með árunum, eða skandínavísku leiðina, þar sem flokkar bjóði fram í blokkum. Hann telur ekkert óeðlilegt við að stjórnmálaflokkar útiloki samstarf við aðra flokka í aðdraganda kosninga. 

„Stundum líta menn svo á að það að segja: ég vil ekki starfa með þessum flokki eftir kosningar, þýði það að maður haldi að sá flokkur sé eitthvað sérstaklega vondur eða að þar séu innanborðs tóm illmenni og skíthalar. En þetta snýst auðvitað um málefni og ég sé í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að flokkar segi fyrir kosningar: minn flokkur er svo ósammála öðrum flokki, að það kemur ekki til greina, eða er mjög ólíklegt, að okkar flokkur vinni með flokki sem við erum í grundvallaratriðum ósammála.“