Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segist vilja byrja á úrræðum fyrir börn í mestum vanda

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Barnamálaráðherra bindur miklar vonir við nýsamþykktar breytingar í málefnum barna sem auka eiga samvinnu og bæta samfellu í þjónustu við börn. Hann vill að byrjað verði á þjónustu við börn sem eiga í mestum vanda. 

Eftirspurn er margfalt meiri en framboð á þjónustu við börn með geð-, þroska- og / eða hegðunarraskanir. Biðlistar eru langir og oft margra mánaða bið eftir þjónustu. 

Faðir ellefu ára drengs með alvarlegar geðraskanir lýsti miklum vanda í sjónvarpsfréttum í gær við að fá þjónustu. Hann gagnrýndi að barnavernd vildi ekki aðhafast í máli drengsins en að aðstoð fengist frá BUGL. 

Katrín Helga Hallgrímsdóttir framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur sagðist í hádegisfréttum ekki tjá sig um einstök mál en að mál barna með alvarlegan vanda væru ekki sjálfkrafa barnaverndarmál. Hún sagði skorta á þau úrræði sem ríkið á að vera að veita samkvæmt lögum. Börn og fjölskyldur liðu fyrir mál sem þessi sem væru í endalausri umræðu milli ríkis og sveitarfélaga. 

„Við erum að undirbúa og var samþykkt í lok þessa þings stærstu kerfisbreytingar í málefnum barna sem ráðist hefur verið í. Þar sem að við erum að innleiða nýtt velferðarkerfi fyrir börn sem á að tryggja samtal á milli allra þjónustukerfa bæði í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, milli sveitarfélaga og í það erum við að fara að setja milljarða á næstum árum og erum byrjuð að undirbúa það,“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. 

Þetta er ráðgert en hins vegar eru börn nú þegar í svakalegum vanda, er eitthvað hægt að gera í því?

„Við höfum sett aukið fjármagn inn til ýmissa úrræða sem að tengjast, bæði barnahús, inn í greiningar- og ráðgjafastöð og fleira. En það er ekki nóg að setja einvörðungu fjármagnið inn vegna þess að við verðum að byggja það á annarri hugsun heldur en að við höfum verið að gera. Vegna þess að við erum búin að byggja grunn að nýju velferðarkerfi. Við þurfum að laga úrræðin að því og þar verður að sjálfsögðu eigum við að byrja þar sem neyðin er mest og það er hjá börnum með fjölþættan vanda.“