Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Réttarhöld hefjast á morgun vegna smitanna í Ischgl

17.09.2021 - 03:20
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RUV
Réttarhöld hefjast í Vínarborg í Austurríki á morgun vegna viðbragða þarlendra stjórnvalda við kórónuveirusmitum á skíðasvæðinu Ischgl í mars á síðasta ári. Þúsundir manna frá 45 löndum segjast hafa smitast af COVID-19 þar og þannig dreift veirunni víða um heim.

Málið sem tekið verður fyrir á morgun er það fyrsta af fimmtán sem höfðuð eru af þýskum og austurrískum gestum skíðastaðarins gegn Austurríki og Týrólríki. Það er rekið fyrir hönd fjölskyldu hins 72 ára Hannes Schopf sem lést af völdum COVID-19.

Austurrísku neytendasamtökin VSV styðja málsóknina en fjölskyldan fer fram á 100 þúsund evrur í skaðabætur. Lögmaðurinn Alexander Klauser sem fer með málið segir minnst þrjátíu til viðbótar ætla að krefja Austurríki um bætur.

Klauser segir gríðarlega annmarka hafa verið á viðbrögðum austurrískra yfirvalda. Það hafi orðið til þess að Ischgl og nærliggjandi svæði urðu gróðrarstía kórónuveirusmita. 

Hann segir í samtali við AFP-fréttaveituna að samkvæmt sérfræðingaskýrslu sem kom út í október síðastliðnum hafi yfirvöld brugðist of seint við og misreiknað sig illilega eftir að tilkynning barst frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum um að fjöldi fólks hefði snúið smitað af COVID-19 heim úr skíðaferð til Ischgl. 

Klauser segir að yfirvöld hefðu haft tvo sólarhringa til að bregðast við viðvöruninni frá Íslandi. Þau létu einnig hjá líða að stöðva frekari ferðir fólks á skíðastaðinn auk þess sem héraðsyfirvöld drógu í efa að Íslendingarnir hefðu smitast í Ischgl. 

Eins hafi myndast örtröð og ringuleið loksins þegar ákveðið var að einangra svæðið og flytja fólk á brott. Schopf hafi þurft að ferðast með hóstandi fólki um langan veg og þannig smitast af COVID-19 að sögn ekkju hans. 

Austurrisku neytendasamtökin segja að um fimm af hundraði þeirra 6.000 sem smituðust í Ischgl þjást af langvinnum eftirköstum sjúkdómsins og alls hafi 32 látist.