Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Öllum Ítölum gert að bera græn covid-vegabréf

epa09465216 Students wearing face masks attend the first day of classes at the Amedeo Avogadro school in Rome, Italy, 13 September 2021. Teachers, school staff and parents entering school property are required to carry the Green Pass, to show they have been vaccinated, tested negative or recovered from COVID-19.  EPA-EFE/Riccardo Antimiani
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Ný lög á Ítalíu skylda starfsmenn allra fyrirtækja og stofnana til að geta sýnt fram á bólusetningu við COVID-19, framvísa neikvæðu prófi eða að staðfesta fyrra smit.

Með öðrum orðum þurfa allir að hafa grænt covid-vegabréf eða standa ella frammi fyrir hörðum viðurlögum. Þetta er í fyrsta sinn sem gripið er til slíkra ráðstafana í Evrópuríki sem eru einhverjar þær hörðustu í heimi að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Hver sá sem ekki hefur grænt vegabréf eftir 15. október næstkomandi, þegar lögin taka gildi, geta átt yfir höfði sér tímabundinn brottrekstur og verða sviptur launum að fimm dögum liðnum.

Fyrirtæki og starfslið þeirra geta átt yfir höfði sér allt að 1.500 evra sekt komist upp að starfsmenn séu án gilds passa. Nú þegar þarf að framvísa slíkum skilríkjum meðal annars til að fara í bíó, á veitingastaði og inn á lestarstöðvar.

Tilgangurinn með vegabréfinu er að hvetja fólk enn frekar til bólusetningar gegn COVID-19 að sögn heilbrigðisráðherrans Roberto Speranza. Næstum 65 af hundraði Ítala teljast fullbólusett en smitum er tekið að fjölga af völdum Delta-afbrigðis veirunnar. 

Græn vegabréf voru upphaflega kynnt til að auðvelda ferðalög innan Evrópusambandsins en allmörg Evrópuríki fara fram á að fólk beri þau í margvíslegum tilgangi. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV