Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ofbeldismálum gagnvart fötluðum fjölgar

17.09.2021 - 17:58
Yfirgefinn hjólastóll á auðum vegi.
 Mynd: Pixabay
Ofbeldismálum gagnvart fötluðum sem berast réttindagæslumönnum þeirra hefur fjölgað. Dæmi eru um umönnunarofbeldi, ekki síður en kynferðis- og heimilisofbeldi.

Málum sem borist hafa til réttindagæslumanna fatlaðra hefur fjölgað um á þriðja hundrað frá því í fyrra. Þó eru rúmir þrír mánuðir eftir af árinu. 

1804 erindi bárust til réttindagæslumanna fatlaðra árið 2020. Það sem af er þessu ári eru þau þegar orðin mun fleiri - eða 2070. Síðustu tvær vikur hafa 180 mál borist.
Sjötíu og fimm ofbeldismál vegna fatlaðs fólks bárust til réttindagæslumanna þess á síðasta ári. Erindin eru allt frá því að snerta heimilisofbeldi, til nauðungar og kynferðisofbeldis, fjárhagslegs ofbeldis og umönnunarofbeldis. 
Jón Þorsteinn Sigurðsson er yfirmaður réttindagæslumanna fatlaðs fólks.

„Hótanir, það er verið að svipta fólk þeim réttindum að geta notið lífsgæða, fara á klósettið eða að vera í þessum aðstæðum að geta kannski ekki gert eitthvað og þurfa stuðninginn en fá ekki stuðninginn af því að það hegðaði sér einhvern veginn eða eitthvað slíkt. Þetta er mjög misjafnt."

Jón segir fatlaða á stundum ekki gera sér grein fyrir að þeir sæti ofbeldi. Þeir telji ástandið eðlilegt því þeir þekki ekki annað.

„Eins og rannsóknir bara sýna þá er þessi hópur mun útsettari fyrir ofbeldi og þetta ofbeldi bæði umönnunarofbeldi og bara ofbeldi almennt hjá fötluðu fólki er eitthvað sem er ósýnilegt í samfélaginu hjá okkur. Það gerir það að verkum að við verðum ekki vör við það. Þess vegna er mikilvægt að tilkynna um slíkt og það er skylda bæði  starfsmanna  í félagsþjónustu  og þá fólks að tilkynna til réttindagæslu ef það telur brotið á réttindum fatlaðs fólks þannig að við getum þá stutt fatlað fólk við að ná fram rétti sínum." 
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir