Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mér líður eins og dekurbarni

Mynd: Galerie Margou / Steingrímur Ga / Galerie Margou / Steingrímur Ga

Mér líður eins og dekurbarni

17.09.2021 - 15:46

Höfundar

Listmálarinn Steingrímur Gauti Ingólfsson opnaði í upphafi september einkasýningu á verkum sínum í galleríi í miðborg Parísar. Galleríið er glænýtt, það heitir Galerie Marguo og reynslumiklir aðilar í myndlistarheiminum reka það. Áhugi á sýningunni var mikill ekki síst hjá aðilum í Asíu sem kunna vel að meta verkin.

Eigendur Marguo-gallerísins eru hjónin Vanessa Guo og Jean-Mathieu Martini en þau hafa víða komið við í myndlistarheiminum en Guo starfaði til að mynda fyrir listmiðlunarfyrirtækið Hauser & Wirth sem gerir út frá einum tíu stöðum í heiminum. Rætt var við Steingrím Gauta í Víðsjá á Rás 1 en viðtalið má heyra hér fyrir ofan.

„Fyrir einmitt ári síðan fékk ég skemmtilega símhringingu frá gallerista, Jean-Mathieu Martini, sem vildi endilega fá að heyra í mér varðandi einhvers konar samstarf. Þetta hljómaði allt voða furðulega í fyrstu en síðan fór ég að kanna þetta og sá að þau hjónin höfðu ákveðið að söðla um í COVID og opna sitt eigið gallerí þarna í Mýrinni. Þetta gallerí á að fókusera á yngri og upprennandi listamenn. Þau höfðu séð verk eftir mig á nokkrum stöðum, leist vel á og voru áhugasöm og vildu bjóða mér að vera með. Ég stökk auðvitað á þetta“ segir Steingrímur Gauti. 

Frábært tækifæri 

Nú hefur Steingrímur Gauti skrifað undir áframhaldandi samstarf við galleríið en á vandaðri heimasíðu þess má sjá myndir af verkum hans og af uppsetningu sýningarinnar.

Þetta er alveg fáránlega gott tækifæri sem ég er alveg gríðarlega þakklátur fyrir. Þetta er glænýtt gallerí og á standard sem ég hef ekki kynnst áður á mínum stutta ferli,“ segir Steingrímur Gauti sem fæddur er árið 1986. „Mér líður bara eins og algjöru dekurbarni og það er fyndið hvernig svona gerist. Stundum ganga hlutirnir upp, stundum gera þeir það bara seinna og stundum ekki.“

Mynd með færslu
 Mynd: Galerie Margou / Steingrímur Ga
Stór málverk Steingríms Gauta njóta sín vel í París.

Vann bara og vann

Sýning Steingríms Gauta, sem hann kallar Soft Approach eða Mjúka nálgun, samanstendur af tuttugu og einu verki sem hann hefur verið að vinna frá því seint á síðasta ári.

„Það sem ég lagði upp með var að sleppa svolítið tökunum og gera bara eins mikið og ég mögulega gæti og sjá hvað kæmi út úr því. Vinnan mín snýst mikið um þetta, framleiðsluna og að pikka út úr ferlinu hluti sem mér þykja ganga upp og halda áfram með þá. Svo ég hugsaði mér að eftir því sem ég gerði meira þá hefði ég meiri möguleika á að gera eitthvað gott.“

Mynd með færslu
 Mynd: Steingrímur Gauti - Galerie Margou
Ónefnt verk eftir Steingrím Gauta í Marguo galleríinu í Mýrinni.

Áhugi frá Asíu 

Steingrímur Gauti varð fyrir miklum áhrifum frá bandaríska abstrakt málverkinu í námi sínu í Listaháskóla Íslands.

„Ég kem inn í málverkið algjörlega þaðan,“ segir hann. „Við skulum orða það þannig að ég get fengið hlutina alveg á heilann en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég hef reynt að vera ekki að leita mér að innblæstri heldur einfaldlega fá innblástuinn með því að vinna nógu mikið.“ 

En sýningin í París gekk vel og samkvæmt heimildum Víðsjár eru nú jafnvel kaupendur til staðar á ómáluðum verkum listamannsins, ekki síst í austrinu.

„Þessi heimur virðist bara vera býsna stór og þau hjá Marguo galleríinu eru með góð tengsl. Vanessa tekur með sér gríðarlega reynslu frá Hauser & Wirth og þekkir Asíumarkað í bak og fyrir. Það hefur því gengið vel að koma verkum á góða staði,“ segir listmálarinn Steingrímur Gauti Ingólfsson. 

Viðtalið við Steingrím Gauta má heyra hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Myndlist

Undirtónar og tilfinningar