Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Marglytta olli laxadauða í Reyðarfirði

17.09.2021 - 09:05
Mynd með færslu
 Mynd: Veiga Grétarsdóttir - Dauðir laxar í Reyðarfirði
Óvenjumikið af eldislaxi hefur drepist í Reyðarfirði undanfarið. Kajakræðari sem myndaði hundruð dauðra laxa telur eldið ekki eiga heima í sjó en laxeldismenn segja eðlilegar skýringar á dauðanum.

Veiga Grétarsdóttir kajakræðari hefur undanfarið myndað eldiskvíar í Reyðarfirði og á myndum sem hún tók fyrir nokkrum dögum má sjá talsvert af dauðum laxi fljóta í kvíunum. „Þetta segir mér bara að þessi iðnaður á ekkert heima í sjó eins og þeir vilja meina. Að þetta sé ekkert svona sjálfbært um umhverfisvænt eins og af er látið. Þá er þetta bara tifandi tímasprengja. Þetta lifir ekkert af í sjó. Þetta eru fleiri hundruð fiska sem eru dauðir þarna. Rotnandi lík. Orðnir roðlausir, ógeðslegir, hauslausir og eftir því sem ég skoða meira því meiri viðbjóð sé ég,“ segir Veiga en hún hefur einnig tekið myndir af illa leiknum eldislaxi á Vestfjörðum. 

Við spurðum Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóra Laxa fiskeldis, hvort eðlilegt sé að allur þessi fiskur drepist í kvíunum: „Núna stendur yfir marglyttutímabilið hér fyrir austan. Það stendur yfir frá svona 15. ágúst til svona 15. október. Og stundum geta komið hér marglyttuskot inn í fjörðinn. Við bregðumst mjög hratt við að setjum dúka í kringum kvíarnar. En það getur komið fyrir að marglyttan komi á netin áður en við náum að setja dúkana fyrir og þá getur þetta gerst og við sjáum það á þessu myndefni að þetta er það sem hefur gerst. En í ákveðnum tilfellum þá er þessi fiskur ekki allur dauður. Hann er í rauninni vankaður eða meðvitundarlaus. Þannig að það er ekki allur fiskurinn sem er dauður þó að hann fljóti á yfirborðinu,“ segir Jens Garðar. 

Mikil þörungablómi er nú víða á Austfjörðum, meðal annars í Reyðarfirði. Hann hefur enn ekki valdið skaða í eldinu enda er hann mest í fjarðarbotninum fjarri eldisstöðvum. Aðspurður um hvort ekki sé betra að ala laxinn á landi vegna hættu sem stafar af marglittu og þörungablóma svarar Jens Garðar: „Það er alveg sama hvort þú ert í landeldi eða sjóeldi að þú ert að eiga við alls konar áskoranir. Við erum búin að bregðast við þessum marglyttuvanda sem er hér í firðinum. Og ég held að við séum að ná góðum tökum á þessu. En auðvitað eru afföllin einhver en hlutfallslega miðað við fjölda fiska í firðinum þá er þetta ekkert rosalega stórt hlutfall. Það verður að halda því líka til haga þó að myndirnar séu ekkert sérstaklega fallegar,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis.

 

Horfa á fréttatíma

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV