Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kannanir alls ekki út og suður

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Jafnvel örlitlar breytingar á fylgi stjórnmálaflokka geta haft meiriháttar breytingar á fjölda þingmanna. Skoðanakannanir sem birst hafa undanfarna daga eru ekki jafn misvísandi og þær kunna að virðast í fyrstu.

Fimm skoðanakannanir hafa birst í vikunni og við fyrstu sýn virðast þær gefa afar misvísandi niðurstöður. Í þremur þessara kannana er ríkisstjórnin fallin en í tveimur heldur hún naumlega velli - en ef rýnt er betur í tölurnar kemur í ljós að munurinn á milli kannana er alls ekki svo mikill.

Sveiflur á milli kannanna eru innan skekkjumarka hjá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki, VG, Sósíalistaflokki og Flokki fólksins. Fylgi Framsóknar er stöðugt í kringum 12 prósent ef undan er skilin ein könnun sem sýnir fylgið í 15 prósentum. Helst má greina sveiflur í fylgi hjá Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum, en þar er munur upp á þrjú til fjögur prósent á milli einstakra kannana. „Þannig að í grófum dráttum eru þær að gefa svipaða mynd og þetta er mest allt innan skekkjumarka og menn verða að muna það að fylgisbreyting upp á eitt, tvö prósent, það er í raun ekkert að marka hana,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessorí stjórnmálafræði.

0,1 prósent fellir ríkisstjórnina

En það sem raunverulega skiptir máli þegar upp er staðið er fjöldi þingmanna, enda ræður hann samsetningu ríkisstjórnar. Þar geta minnstu breytingar á fylgi flokkanna gjörbreytt landslaginu og nefnir Ólafur sem dæmi könnun Gallup sem sýnir að ríkisstjórnin heldur naumlega velli og svo könnun Maskínu sem sýnir ríkisstjórnina kolfallna. „En ef við rýnum betur í Gallup könnunina, þar sem að stjórnin var með 32 þingmenn, þá ræðst það af því að í þeirri könnun var Flokkur fólksins með 4,9 prósent . Ef hann hefði bætt við sig 0,1 prósent og fengið fimm, þá hefði hann fengið þrjá þingmenn en ekki einn. Og hvaðan komu þessir tveir þingmenn til hans? Þeir kæmu frá VG og frá Framsóknarflokknum. Þar með, með þessari pínulitlu breytingu væri stjórnin ekki með 32 þingmenn heldur 30.“

Og þar með væri ríkisstjórnin fallin. Ólafur segir að sú staða gæti hæglega komið upp að ríkisstjórnin falli og haldi til skiptis, langt fram á kosninganótt.