Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hagnaður af álverinu að nýju

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Umskipti hafa orðið í rekstri álversins í Straumsvík með hækkandi álverði og nýjum raforkusamningi við Landsvirkjun. Álverið skilar því hagnaði og er keyrt áfram á fullum afköstum.

Morgunblaðið hefur þetta eftir Bjarna Má Gylfasyni leiðtoga samfélagsmála hjá Rio Tinto á Íslandi í dag.

Í nokkur ár þótti tvísýnt hvort rekstri álversins yrði haldið áfram en það tapaði 29 milljörðum króna á núverandi gengi árin 2018 til 2020. Nú segir Bjarni Már að það sem af er ári hafi verið selt um 20 þúsund tonnum meira af áli en sem nemur eigin framleiðslu versins.

Hann segir þó ótímabært að ræða afkomuna í ár en reiknað sé með að hún verði viðunandi.

Álmarkaðir séu sveiflukenndir og þurfi fyrirtækið að vera sjálfbært til lengri tíma og um það hafi nýir samningar við Landsvirkjun um miðjan febrúar meðal annars snúist. Eftir það hafi framleiðslan aukist og raforkunotkun í samræmi við það.