Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grjóthnullungar lokuðu Siglufjarðarvegi

17.09.2021 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Stefanía Hjördís Leifsdóttir - Rúv
Á Siglufjarðarvegi óku vegfarendur, á leið frá Strákagöngum til Siglufjarðar, að stærðar grjóthnullungum í morgun þannig að ekki var hægt að komast þar fram hjá. Að aka um veginn er líkt og að spila rússneska rúllettu segir vegfarandi.

 

Risastór björg

Stefanía Hjördís Leifsdóttir íbúi í Fljótunum, átti leið um veginn í morgun. „Við vorum sem sagt á leið til Siglufjarðar í morgun rétt fyrir kl. 10 og þá mætir okkur þetta grjóthrun á leiðinni eftir að við vorum komin úr göngunum Siglufjarðarmegin. Þetta voru risastór björg.“

Stefanía Hjördís segir að þurft hafi að fá vinnuvélar frá Siglufirði til að fjarlægja hnullungana þannig að mögulegt væri að aka um veginn. Stefanía segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Stefanía Hjördís Leifsdóttir - Rúv
Hér hafa hnullungarnir rúllað niður

 

Eins og rússnesk rúlletta

Stefanía Hjördís segir Siglufjarðarvegur sé á löngum kafla hættulegur. „Það er eins og eiginlega að spila rússneska rúllettu að fara þennan veg. Hvort sem það er vetur eða sumar. Það er snjóflóðahætta gríðarleg á veturna og svo mikið grjóthrun á sumrin og sérstaklega á haustin eftir mikla vætutíð.“

Sumarið hefur verið með eindæmum þurrt en nú er komin rigningatíð og Stefanía óttast að fleiri skriður fari af stað. Ekki hefur komið til slysa á fólki á leiðinni þó bílar hafi lent í tjóni við að aka yfir grjót í myrkri.

Stefanía Hjördís segir það ótrúlega lukku að aldrei hafi orðið meiriháttar slys á fólki á þessari leið. Það ætti þó ekki endalaust að treysta á lukkuna. „Það eru náttúrlega stjórnvöld sem ættu að fara að huga að því að gera eitthvað áður en það verður eitthvert stórkostlegt slys,“ segir Stefanía.

 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir