Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Fangelsi eiga ekki að vera stefnumótastaðir“

17.09.2021 - 14:59
epa06139882 Danish submarine owner and inventor Peter Madsen after landing with the help of the Danish defense in Dragor Harbor south of Copenhagen, Denmark, 11 August 2017 (issued 12 August 2017). Peter Madsen reached dry land after a major search action
 Mynd: epa
Til stendur að samþykkja lög á danska þinginu sem koma í veg fyrir lífstíðarfangar geti stofnað til rómantískra kynna við fólk utan múranna. Búist er við að lögin taki gildi í janúar næstkomandi.

Fangar sem afplána lífstíðardóma eiga ekki að fá að stofna til náinna kynna eða tilhugalífs við fólk utan við fangelsið. Lög til að koma í veg fyrir slíkt verða lögð fyrir danska þingið í kjölfar þess að upp komst að 17 ára gömul stúlka varð yfir sig ástfangin af Peter Madsen, en hann hlaut lífstíðarfangelsi fyrir að myrða sænsku blaðakonuna Kim Wall árið 2017 um borð í kafbáti sem hann hannaði sjálfur. Líkið hlutaði hann svo niður og sökkti í sjóinn.

Lögin kveða á um að fyrstu 10 árin sem fangar afplána af lífstíðardómum fái þeir ekki að hafa samband við fólk sem þeir þekktu ekki áður en afplánun hófst. Á það bæði við um símtöl, bréfaskriftir og internetið. Frá þessu er greint á The Guardian.

„Við höfum séð ósmekkleg dæmi þess á síðustu árum að fangar sem framið hafa viðbjóðslega glæpi setji sig í samband við ungt fólk til að vekja hjá þeim samúð og fá athygli,“ sagði dómsmálaráðherra Danmerkur, Nick Hækkerup. „Slíkt þarf vitaskuld að stöðva.“

Hann bætti því við að fangelsi ættu ekki að vera notuð sem stefnumótastaðir eða fjölmiðlavettvangur þar sem glæpamenn gætu montað sig af illvirkjum sínum.

Peter Madsen, sem var í senn dæmdur fyrir gróft kynferðisbrot, morð og vanhelgun á líki, gekk á síðasta ári að eiga rússnesku listakonuna Jenny Curpen.

Áður hafði hann með bréfaskrifum og símtölum stofnað til náinna kynna við hina 17 ára Cammillu Kürstein sem sagðist í viðtölum við danska fjölmiðla vera yfir sig ástfangin af hinum dæmda morðingja. Hún varar nú áhrifagjarnt ungt fólk við að stofna til kynna við dæmda glæpamenn.