Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Debbie Harry heiðursgestur á RIFF

Mynd með færslu
 Mynd: RIFF - RÚV

Debbie Harry heiðursgestur á RIFF

17.09.2021 - 12:14

Höfundar

Debbie Harry söngkona rokkhljómsveitarinnar Blondie verður heiðursgestur á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, sem hefst í lok mánaðarins. Á meðal kvikmynda hátíðarinnar er mynd hennar, Blondie: Að lifa í Havana um tónleikaferðalag hljómsveitarinnar til Kúbu í leikstjórn Rob Roth. Með ferðinni, sem var í boði menningarráðuneytis Kúbu, rættist 40 ára gamall draumur hljómsveitarinnar. Kvikmyndin er hluti af tónlistarmyndadagskrá hátíðarinnar.

Debbie Harry verður viðstödd sýningu myndarinnar 2. október í Bíó Paradís og situr svo fyrir svörum áhorfenda. Í myndinni má heyra hana segja að hún hafi komist að því á ferðalögum sínum víða um heim að tónlist þeirra er vel þekkt.  

Blondie var stofnuð árið 1974, er enn starfandi og hvað þekktust fyrir lögin Call Me, Rapture, The Tide is High og Heart of Glass. 

Í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að kvikmyndaleikstjórinn og fjöllistamaðurinn Rob Roth sem leikstýrir er þekktur fyrir að nýta sér margskonar listform í verkum sínum. Sjá má þess í myndinni. 

Debbie Harry ólst upp í New Jersey og stofnaði hljómsveitina með Chris Stein árið 1974. „Blondie skapaði fallega brú milli þeirra fjölbreyttu menningarstrauma sem hrærðust í New York-borg áttunda áratugarins: pönki og framúrstefnu CBGB klúbbsins, frelsandi diskóhreyfingarinnar sem gjarnan er kennd við Studíó 54 og hipphoppbylgjuna sem sprettur úr Bronx-hverfinu,“ segir í tilkynningunni.