Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Danir tilnefna bækur um lífið í hagkerfi kapitalismans

Mynd: Ursula Andkjær Olsen / Ursula Andkjær Olsen

Danir tilnefna bækur um lífið í hagkerfi kapitalismans

17.09.2021 - 14:29

Höfundar

Danir tilnefna í ár tvö mjög ólík verk til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bæði verkin gegnumlýsa samhengi manneskjunnar og samfélagsins, draga fram dulda þræði áhrifavalds hins kapitalíska hagkerfis í lífinu. Þetta eru ljóðabókin Mit smykkeskrin eða Skartgripaskrínið mitt eftir Ursulu Andkjær Olsen og stutt skáldsaga, Penge på lommen, eftir Asta Oliviu Nordenhof.

Hin þrjátíu og tveggja ára Asta Oliviu Nordenhof er þegar stórt nafn í dönskum bókmenntaheimi. Sagt var þegar hún sendi frá sér fyrstu ljóðabók sína árið 2013, þá tuttugu og fimm ára og nýútskrifuð úr rithöfundaskólanum danska, að dönsk ljóðagerð yrði ekki söm eftir. Bókin sem nú er tilnefnd, Skandinavian Star del 1 Penge på lommen, eða Skandinavian Star 1. hluti Peninga í vasann, hefur einnig fengið framúrskarandi gagnrýni þótt það hafi greinilega komið aðdáendum fyrstu bókar höfundar, ljóðabókarinnar Det nemme og det ensamme, á óvart að ljóðskáldið skyldi skipta úr bersöglum og persónulegum ljóðum yfir í bókmenntagrein sögulegra skáldsagna.

 

Mynd með færslu
 Mynd: norden.org
Asta Oliva Nordenhof. Mynd Albert Madsen.

Penge på lommen er ekki löng saga og er fyrsti hluti sagnabálks sem ber yfirtitilinn Scandinavian Star, fyrsti hluti. Sagan er með öðrum orðum upphaf framhaldsskáldsagnaflokks í sjö bindum og munu allar sögurnar tengjast stórbrunanum á ferjunni Scandinavian Star aðfaranótt 7. apríl árið 1990.

Ferjan Scandinavian Star var á leið frá Osló til Fredikshavn þegar í rauðabítið, þann 7. apríl eldar kviknuðu nær samtímis á mörgum stöðum í skipinu. Tæplega fjögurhundruð manns voru um borð, farþegar og áhöfn og fórust 159 þeirra, langflest köfnuðu vegna eiturefnagufa. Dómsmál og lögreglurannsókn vegna brunans teygði sig allt fram á þessa öld og hafði þá hvorki tekist að sanna að margdæmdur brennuvargur og flutningabílstjóri sem lét lífið í brunanum hefði verið að verki né að áhöfnin hefði lagt eldana til að komast yfir tryggingarfé og er talað um málið sem stærsta óleysta sakamál á Norðurlöndunum. 
 
Þetta stóra, allt til þessa dags óleysta, sakamál er ekki umfjöllunarefni bókarinnar Penge på lommen en líf aðalpersóna sögunnar, Kurt og Maggie, tengist einu viðskiptafélaganna sem áttu skipið. Kurt lætur nefnilega, án nokkurrar innsýnar í vafningaleiðir hins kapítalíska fjármálaheims, ginnast til að fjárfesta í einu þeirra fjármálafélaga sem eiga ferjun. Þá er Maggie reyndar látin. Sú samfélagsgerð sem þróast hefur á grundvelli hins kapítalíska efnahagskerfis hefur hins vegar líka veið ráðandi afl í lífi hennar eins og flestra okkar. 

Frásagnarmáti sögunnar er sérstæður, í stökum köflum er á víxl sagt frá lífi Kurts annars vegar og Maggiar hins vegar, áður en þau kynnast og eftir að leiðir skilja. Aðeins einn eða tveir kaflar bókarinnar eru helgaðir þeirra sameiginlega lífi. Þá blandar sögukonan, höfundurinn, sér reglulega inn í frásögnina. Þannig segir í upphafi frá því hvernig sögukona á ferð með strætisvagni eða rútu einhvers staðar á Fjóni sér út um glugga vagnsins hvíthærðan mann sem horfir á hana inn um gluggann. Þegar vagninn ekur af stað aftur er sögukonan gagntekin þeirri óhugnanlegu vissu, eins og hún orðar það, að hún hafi eitthvað í fórum sínum sem tilheyri honum. Þessi tilfinning er svo sterk að hún ákveður að fara aftur til baka með vagninum eftir að hann hefur náð endastöð, og leita manninn uppi en finnur hann auðvitað ekki. En hún finnur hús þar sem einu sinni hafði í skemmu, sem ekki er lengur til staðar, verið rekið Rútufyrirtæki Kurts og þar með hefst samtal eða öllu heldur eftirför höfundar um lífsögu þeirra Kurts og Maggie, sem er hið eiginlega innihald sögunnar: saga um hetjulega baráttu þeirra fyrir svolítilli hamingju sem skrapp þeim stöðugt úr greipum. Þau áttu aldrei sjens ekki frekar ern Bjartur í Sumarhúsum og líkt og Bjartur reyndu þau allt sem þau gátu til að halda í sjálfstæði sitt og sjálfræði þótt það kostaði bæði t.d. að selja líkama sinn um skeið. 

Það eru sögur um hið sótbölvaða líf í óréttlæti sem Ástu Olivu Nordenhof vill segja í sjö binda sagnaflokki sínum sem hún tengir ferjubrunanum mikla sem hún er sannfærð um að hafi verið af mannavöldum, tryggingarsvik í skjóli óljóss eignarhalds og er þeirri röksemdarfærslu helgaður drjúgur kafli um miðbik sögunnar. 

Bruni ferjunnar Scandinavian Star var ekkert einsdæmi. Hið óvenjulega er að manneskjurnar sem þar létust, þ.e. urðu fórnarlömb framgangs kapitalismans, voru Skandinavar en fórnarlömb viðlíka atburða eru yfirleitt langt í burtu, búsett í öðrum heimshlutum, í Indlandi, Bangladesh og svo framvegis. Áhugi minn á Sandinavian Star tengist því að ég lít á þessa atburðarás sem smámynd af hinni stóru sögu sem stöðugt endurtekur sig og er kjarni kapítalismans. Skilmálarnir eru einfaldir, einhverju og einhverjum verður að fórna til að aðrir geti lifað því lífi sem þeir kjósa.

Í byrjun sögunnar fáum við innsýn í  lífið í rútufyrirtækinu, Kurt og hans menn kunna á mekanikk en Kurt kann ekkert á tilfinningar, hvorki sínar né konu sinnar. Reyndar eru þau Maggie og Kurt ekki gift, það gleymdist greinilega í erlinum við rekstur fyrirtækisins sem gengur vel og í hjónalífinu sem gengur illa. Aðaláhyggjuefni Kurts er hvað skuli gera við peningana sem streyma að honum. Einhver segir að hann eigi að fjárfesta, en ekki geyma seðlana inni í rúmdýnunni. Maggie veit ekkert um peningana enda er henni þegar hér er komið sögu alveg sama hvað Kurt gerir um leið og hún leitar stöðugt að ástæðunni fyrir því að þau skuli eiga sameiginlegt heimili og fullorðna dóttur, sem er farin að heiman. Hún minnist að einhvern tíma hafi eitthvað verið til sem hún nefndi ást.

„Hvað er ást? Maggie lítur á mig, úr andlitinu skín bæn án innihalds. Eins og form bænarinnar sé það eina sem er eftir, djöfullegar útlínur án innihalds.
„Ég veit það ekki Maggie. Seg þú mér !“

Maggie getur ekki svarað þessari spurningu sögukonunnar. Þau hittust á vertshúsi, drukku og skemmtu sér. Kurt átti þá eiginkonuna Ullu, sem var búin að fá nóg og hafði beinlínsi farið fram á að hann fyndi sér aðra að deila rúmi með. Maggie virðist heppileg, fjörug og til í tuskið og Kurt er laglegur og dansar vel. Fyrr er varir er Maggie flutt inn hjá Kurt og Ullu sem svo biður þau um að fara annað. Maggie og Kurt þvælast um milli íbúða og vinnustaða þar til þau setjast að bóndabænum á Fjóni sem sögukona sá fyrir sér. Og áfram þéttast myndirnar af lífi Kurts og Maggiar. Í ljós kemur að Kurt ræður stundum ekki við sig, hann hrindir Maggie, hrækir á hana,  hann sér alltaf eftir því, iðrast sárlega, elskar hana svo heitt.  Þegar Maggie svo verður ófrísk að dótturinni Sofie heldur hún að þessu linni, sem ekki gerist. Allt eru þetta kunnuglegt þrástef í ofbeldissambandi sem með tímanum gera þann aðilann sem verður fyrir ofbeldinu dofinn og áhugalausan sem síðan verður kannski ríkjandi ástand með óljósri minningu um ást í bakgrunni, ást sem bæði Kurt og Maggie þrá að grafa fram á ný og  gæti kannski bjargað. En það tekst ekki. Stærsti hluti frásagnarinnar er þó helgaður forsögu þessara tveggja, sögu sem er svo nöturleg og gersneydd tækifærum til að skapa sér hamingjusamlegt líf. 

Í þessari sögu Astu Oliviu Nordenhof er ekki staldrað við smáatriði. Sofie dóttir þeirra Kurts og Maggie er flutt að heiman. Við fáum þó svolitla innsýn í það hvernig hún vex móður sinni, Maggie, yfir höfuð, tileinkar sér viðeigandi orðaforða og aðferðir til að lifa því lífi sem hún sjálf kýs . Og svo deyr Maggie einfaldlega, hún tekur ein leigubíl á spítalann þegar hún þolir ekki lengur verkina í höfðinu og deyr þar skömmu síðar. Sofie greinir föður sínum frá andlátinu sem verður upphafið að endalokunum.

Með fjárfestingu í einu eignarhaldsfélaga Scandinavian Star er honum lofað margföldum gróða nú þegar ferjusiglingar um Stóra-belti höfðu verið gefnar frjálsar og Scandinavian ferjurnar taka að flytja farþega. Við brunann missir Kurt hins vegar allt. Og hann var örugglega ekki sá eini. Þær voru nefnilega fleiri ferjurnar sem báru þetta nafn Scandinavian þetta og Scandinavian hitt og flestar brunnu,  Í öllum tilvikum varð mannbjörg, utan í þetta eina sinn þegar Scandinavian Star brann og varð síðar sú logandi táknmynd sem  skáldkona Asta Olivia Nordenhof velur til þess að segja 7 af hinum óteljandi ósýnilegu sögum sem auðvaldsstefna heimsins hefur skrifað. 

Mynd: norden.org / norden.org
Ursula Andkjær Olsen. Mynd: Rolando Diaz

Danska ljóðskáldið Ursula Andkjær Olsen er fædd árið 1970. Hún verður 51 árs í nóvember. Breytingaskeið, svo fallegt orð og í raun fáránlegt að það eigi að vísa til einhvers ákveðins tímabils í lífi manns - ja, eða lífi konu. Hlýtur lfíið í heild sinni  ekki að vera eitt stórt breytingaskeið. En við vitum öll við hvaða tímabil átt er við með orðinu. Við eigum líka annað orð yfir sama tímabil. Tíðahvörf. Líka fallegt. Bein tenging við tunglið og öldurnar og krafta alheimsins. Breytingaskeið og tíðahvörf. Tvö falleg orð yfir áhugavert tímabil sem lítið er talað um almennt. En umræða hefur aukist síðustu misseri og má þar benda á sviðsverk eftir Lovísu Ósk Gunnarsdóttur fyrir um það bil ári, þar sem fjallað var um breytingaskeiðið. Þá voru útvarpsþættir hér á Rás 1, um sama efni, ekki alls fyrir löngu. Líkt og með kynþroskann eru konur á mismunandi aldri þegar þær fara í gegnum tíðarhvörf. En meðalaldurinn er 51 árs.

Í rökstuðningi valnefndar dönsku tilnefninganna er verkum Ursulu lýst þannig að hún flétti þar saman margvísleg stef og þætti svo að það minnir á uppbyggingu sígildra tónsmíða. Líklega engin tilviljun, þar sem hún er með mastersgráðu í tónlistarfræðum, auk þess sem hún er menntuð í heimspeki og ritlist. Hana dreymdi reyndar alltaf um að verða píanóleikari, en systir hennar tók það hlutverk að sér. Í viðtali hjá vefvarpi danska Louisiana safnsins segist Ursula Andkjær Olsen hafa lesið mikið í æsku. Hún segist hafa verið mest hrifin af fantasíubókum en það hafi ekki verið nægilegt framboð af þeim þegar hún var lítil. Þegar hún var í áttunda bekk segist hún hafa ákveðið að nú skyldi hún bara lesa fullorðinsbækur. Og hún byrjaði í hillunni heima og varð Karen Blixen fyrst fyrir valinu. Hún var auðvitað allt of ung, segir hún, hún skildi ekki ljóðin – en hún skynjaði andrúmsloftið. Skynjaði taktinn og ljóðin bókinni Mit smykkeskrin, hljóma í upplestri seiðand dálítið eins og tónlist.

Ursulu Andkjær Olsen hefur gefið út tólf ljóðabækur frá árinu 2000 og eina skáldsögu. Ljóðabók hennar Havet er en scene – Hafið er svið – var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2009. Árið áður hafði hún reyndar fengið Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, eða svo gott sem því það var tónsmiðurinn Peter Bruun sem hlaut verðlaunin fyrir óperuna Miki Alone – Seven songs for a mad woman - en Ursula skrifaði líbrettóið. Allan sinn ritferil hefur Ursula Andkjær Olsen gert tilraunir með nýstárleg form og uppsetningu texta, auk þess sem dekkri tónar hafa smám saman læðst inn í verk hennar. Hún hefur haft mikil áhrif á yngri kynslóðir skálda og stendur sem lýsandi viti í danskri ljóðlist. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín gegnum árin og var meðal annars tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2009.

Ljóðabókin Mit smykkeskrin skiptist í sjö kafla, sem aðskildir eru með ljósmyndum dönsku myndlistarkonunnar Sophiu Kalkaus. Á undan hverjum kafla er eins konar formáli, eitt ljóð í aðeins öðruvísi takti en hin, nær því að vera prósaljóð, eins og lýsing á draumi. Svo kemur ljósmyndin og síðan hefst kaflinn. Þótt hvert ljóð standi eitt og sér þá er bókin óhjákvæmilega ein heild. Einn ljóðabálkur,  samsettur af ótal þráðum og hugmyndum, listilega ofnum saman. Ljóðin eru þó hvert fyrir sig stutt og skorinorð og liggur heil hugmyndafræði á bak við hvern þessara þráða. Móðurhlutverkið og missir mynda einn þessara þráða en þetta hvort tveggja hefur verið miðlægt í verkum Ursulu síðastliðinn áratug. Hér nálgast hún umfjöllunarefnið út frá nýju sjónarhorni, nefnilega breytingaskeiðsins. Hvað er kona eftir breytingarskeið? Hvað er kona fyrir breytingarskeið? 

Ursula Andkjær Olsen fjallar í ljóðabálki sínum um líkamlegar breytingar og hvernig legið er tómt, svo áþreifanlega tómt, því það verður aldrei fyllt á ný. Ljóðin fjalla um það að missa hlutverk, að missa tilgang, að missa frjósemina, að verða aftur stelpa. Það er áhugavert hvernig Andkjær Olsen tengir breytingaskeiðið kynþroskanum, eins og þar verði einhvers konar afturhvarf. Öfugur kynþroski? Hún segist hafa upplifað dauðann, móðirin er dáin, hin frjóa kona er ekki lengur til. Hún er aftur orðin stelpa, jómfrú. 

Líkaminn er fyrirferðarmikill í ljóðunum, tilfinningar ljóðmælanda gagnvart eigin líkama og líkamsstarfssemi. Líkamsvessar, öldrun líkamans, sársauki. Hún veltir fyrir sér eigin hrörnandi líkama, hún upplifir hann tóman, hverfandi. Og stundum virðist hún vera að leita að honum. “

Ég vil bara sjá eitthvað, en það er ekki neitt 
Ég vil fá myndir, en ég fæ engar
og engan nýjan líkama, aldrei aftur.

Hvaða tilfinningar vakna hjá konu á þessum tímamótum? Sorg? Léttir? Reiði? Sátt? Reiðin og forboðnar hugsanir Ursula sagði í viðtali við sænsku blaðakonuna Yukiko Duke að hún hafi velt fyrir sér kröfu samfélagsins að sjá hlutina alltaf út frá ólíkum sjónarhornum og reyna þess vegna að dempa eigin tilfinningar og væntingar til annarra. Stundum er þó nauðsynlegt að vera ósanngjarn, stundum verða tilfinningar bara að fá að vera eins og þær eru.  Síðar í sama viðtali tala þær um þróun ljóða Andkjær Olsen og blaðakonan segir að sér finnist eldri verk hennar einkennast af mörgum röddum en með tímanum sé eins og þeim hafi fækkað. Hún spyr Ursulu hvort það að eldast sé ástæðan. Ursula svarar að hinn margradda hljómur eldri ljóða hennar komi hugsanlega frá tónlistarbakgrunni hennar, hún hugsi í röddum, en svo nefnir hún aftur þetta með sjónarhornin. Að hingað til hafi henni liðið eins og öll sjónarhorn ættu alltaf að koma fram. Nú finnist henni hún hafi öðlast þor og dug til að skrifa bara það sem hún vill jafnvel þótt það sé ferlega ósanngjarnt og taki eingöngu inn hennar eigin upplifun og sjónarhorn og mögulega tengist þessi breyting orsakasamhengi þroska og öldrunar og þess að þora að tala um hlutina. Þessar hugleiðingar eru kannski kynslóðabundnar. Í dag þora blessunarlega margar ungar konur, þótt aðrar þegi. 

Hvert tímabil lífsins kemur í kjölfar breytingaskeiðs. Mit Smykkeskrin eftir Ursulu Andkjær Olsen er taktföst, seiðandi ljóðabók, þar sem umfjöllunarefnið er móðurhlutverkið frá nýju sjónarhorni, höfundur veltir upp áleitnum og óþægilegum spurningum um líkama kvenna og setur innsta kjarnann í líkama hverrar konu - legið - í samhengi við útþenslu alheimsins enda opnast ljóðin smám saman og mynda aðdáunarvert net þráða sín á milli. Breytingaskeiðið hefur hingað til ekki verið áberandi viðfangsefni í norrænum bókmenntum og Ursula Andkjær Olsen nálgast það á frumlegan og ljóðrænan hátt með því að sýna áhrifin á líkamlega og andlega líðan, auk þess að setja það í samhengi stærra hringrásarferlis

(...)
ég má prófa að deyja 
því ég er dáin
ég má það það er gjöf
það er nokkuð sem verður ekki að skuld 
það er nokkuð sem enginn getur tekið frá mér

hvörfin frá frjósemi að ófrjósemi
 frá fullu tungli að nýju tungli 
ég verð jómfrú aftur

ég verð stúlka 
aftur. 

Í þessari hringrás er líkaminn tengdur öðrum líkömum, einnig náttúrunni og hinu alltumlykjandi hagkerfi. Ljóðin sýna hina líffræðilegu og tilfinningalegu hringrás lífsins, og það hvernig breytingaskeiðið er liður í þessu iðandi hagkerfi fólks sem tekur, skilar og gefur til baka. Þannig er víða lögð á það áhersla í bókinni að öll tengsl séu háð einhvers konar hagkerfi. 

Naflastrengurinn var fyrsta boðleið hagkerfisins
kiptist í munn og munnstykki
á sitthvorum líkamanum.

Í Mit smykkeskrin kemur það enn skýrar fram en í fyrri ljóðabókum Andkjær Olsen hvernig rökfræði hagkerfisins gegnsýrir alla tilveru okkar. Hinir sjö hlutar ljóðabókarinnar eru aðgreindir með ljósmyndaverkum eftir Sophiu Kalkau og bera nöfn á borð við Bankahólf og Skartgripaskrínið mitt, og líkt og ílátið rauða á forsíðu bókarinnar vísa þessir titlar til legsins. Í bókinni er legið eins og holur geymir eða leið til að færa einn líkama yfir í annan, fram að hinum sársaukafulla missi frjóseminnar. Dauðinn er áberandi í ljóðunum, auk vísana í ævintýri og goðsagnir. Hver hluti bókarinnar inniheldur skáletrað ljóð með frásögn og þar birtast bæði barn og látin móðir ljóðmælandans í formi radda og nærveru, en einnig sem söknuður, og það er liður í hinni miklu hringrás þar sem allt tengist.

að eiga
stað í sjálfri sér
 minninguna um að hafa verið
 að minnsta kosti tvær
samhangandi lífverur
önnur inni í hinni
sem man dvölina inni í þeirri þriðju
man kannski

siðmenning keðja
með minnst tveimur hlekkjum
enginn er einn.

Á sinn svimandi hátt rúmar Mit smykkeskrin hreinlega allt og vekur okkur til umhugsunar og skynjunar um allt í þessum heimi. Úr markvissum og heimsfræðilegum skrifum Ursulu Andkjær Olsen liggur þráður til ljóðabókarinnar det, stórvirkis Inger Christensen frá 1969, sem einnig er vísað til á fyrstu síðu Mit smykkeskrin: „það var allt og sumt / var það allt og sumt // svo erum við í strætó“.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Finnar tilnefna bækur um að lifa saman eða í samkeppni

Menningarefni

Sænskar sögur um manneskjurnar á jaðrinum