Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Börnum ekki síst umhugað um umhverfismál

17.09.2021 - 08:50
Mynd:  / 
Börnum í grunnskólum er ekki síst umhugað um umhverfismál í aðdraganda kosninga. Þetta segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, en Kosningafundur barnanna var haldinn í fyrsta skipti í gær. Salvör var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Það höfum við fundið undanfarin ár að börn eru uggandi um umhverfið og þróunina í loftslagsmálum og hafa tekið þátt í alls konar viðburðum sem tengjast því og mótmælum. Þau eru auðvitað mjög upptekin af umhverfismálunum,“ sagði Salvör. 

Börn væru líka með hugann við málefni sem tengjast skólanum og heilbrigðismálunum. „Þau voru mjög mikið að spyrja um jafnræði og að öll börn hafi tækifæri til að komast í framhaldsskóla og vera í framhaldsskóla. Mjög upptekin af fordómum og hvernig er hægt að uppræta fordóma gagnvart hópum og hvernig er hægt að bæta líðan barna í skólum eftir COVID-19,“ sagði hún.

Dagana 21. og 22. september fara fram krakkakosningar í fjölmörgum grunnskólum landsins en þær eru samstarfsverkefni umboðsmanns barna og RÚV. Niðurstöður krakkakosninga verða kynntar í upphafi kosningasjónvarpsins þann 25. september.