Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ásta var fordæmd fyrir sína #metoo-sögu

Mynd: Menningin / RÚV

Ásta var fordæmd fyrir sína #metoo-sögu

17.09.2021 - 08:39

Höfundar

Pönnukökur með rjóma og spennuþrungin þögn urðu til þess að Ólafur Egill Egilsson fékk nasasjón af harmrænum örlögum Ástu Sigurðardóttur skálds þegar hann var átján ára. Aldarfjórðungi síðar hefur hann skrifað og leikstýrt leikriti um Ástu, sem verður frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á föstudag.   

Ásta Sigurðardóttir var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðja síðustu öld. Myndlist hennar og ritverk vöktu aðdáun en líka hneykslun. Hæfileikar hennar voru augljósir en ævin mörkuð af fátækt og alkóhólisma. Ásta eignaðist sex börn, þar af fimm í stormasömu sambandi við Þorstein frá Hamri, áður en hún lést árið 1971, aðeins 41 árs gömul.   

Ólafur Egill semur bæði leikgerðina og leikstýrir. Fyrstu kynni hans af Ástu Sigurðardóttur voru þegar hann keyrði afa sinn, dr. Gunnlaug Þórðarson, norður í land, þegar hann tók að segja þeim frá Ástu og Þorsteini og þeirra lífi. Gunnlaugur bar mikla virðingu fyrir þeim sem listamönnum en hafði líka starfað fyrir barnaverndaryfirvöld og þurft að hafa afskipti af fjölskyldunni á sínum tíma. Á Mývatni hittu þeir kærustu og verðandi eiginkonu Ólafs, Esther Talíu. Móðursystir hennar var þá gift Þorsteini, sem var þarna líka.  

„Svo sátu þeir þarna, afi og Þorsteinn, með þessa erfiðu fortíð og borðuðu pönnukökur með rjóma. Þeir sögðu fátt, já og jæja og humm. Þetta sat í mér. Öll þessi fortíð og dramatíska saga og svo var ekkert hægt að segja, bara þögnin ein.“  

Í framhaldsskóla heillaðist Ólafur svo af skáldskap Ástu og lífi hennar og þegar Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri spurði Ólaf hvort hann væri til í að semja nýtt verk var nafn Ástu fljótt að koma upp.  

Ólafur Egill samdi verkið í samráði við börn Ástu og leitaði fanga sem víðast, bæði í opinberum heimildum og einkabréfum og samtölum við fólk sem þekkti Ástu.  

„Þótt fólk hafi bara hitt hana einu sinni situr hún eftir í minningunni. Hún var hrífandi og snjöll en líka einræn og dul og gat verið myrkur yfir henni.“ 

Í verkinu er svipmyndum af Ástu brugðið upp og lög sem Guðmundur Óskar Guðmundsson samdi við ljóð hennar notuð til að endurskapa tíðarandann í tónum. Birgitta Birgisdóttir fer með titilhlutverkið, en hún las sögur hennar í menntaskóla.  

„Þegar ég var að leika í Djöflaeyjunni 2016 notaði ég hana sem fyrirmynd og þá varð ekki aftur snúið. Þá fékk ég hana á heilann, las allar hennar sögur aftur og fór að rannsaka hennar líf. Hún hefur átt hug mig síðan. Mig langaði mjög til að leika Ástu og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir þetta hlutverk.“  

Birgitta þurfti að taka á honum stóra sínum til að taka líf Ástu ekki of mikið inn á sig.  

„Það var fyrst í síðustu viku sem ég gat farið í gegnum verkið án þess að gráta yfir hennar harmi. Þetta hefur tekið á, en á góðan hátt.“ 

Ólafur segir að hluti af örlögum Ástu sé bundinn því samfélagi sem hún bjó í.  

„Ásta á sína #metoo-sögu. Frá sunnudagskvöldi til mánudagsmorguns er hennar frásögn af nauðgun sem hún verður fyrir, samkvæmt öllum heimildum. En viðbrögðin við sögunni voru að hún var fordæmd, sem átti hlut í að sliga hana. Þetta er það sem við getum tekið úr sögu Ástu í dag, við stöndum á krossgötum í samskiptum kynjanna og allt það, og svo líka þessi eilifðarlexía: við eigum öll að fá að vera eins og okkur lætur best að vera en ekki að samfélagið sé að steypa okkur í ferköntuð mót.“  

Fjallað var um Ástu í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hafi einhver orðið fyrir druslusmánun þá var það Ásta