Ákærðir fyrir að ráðast hvor á annan með hníf og glasi

17.09.2021 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært tvo karlmenn sem eru sagðir hafa ráðist hvor á annan í Reykjavík í október. Annar sló hinn með glerglasi í höfuðið og kýldi hann nokkrum sinnum en hinn svaraði fyrir sig með því stinga hann í bakið með IKEA-hníf.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á næstunni.

Sá sem var sleginn í höfuðið með glasi hlaut skurð á höku, kinn og enni.  Hinn, sem var stunginn í bakið, hlaut 5 sentimetra djúpan skurð.

Saksóknari krefst þess að báðir mennirnir verði dæmdir til refsingar , að þeim verði gert að greiða allan sakarkostnað og að IKEA-borðhnífurinn verði gerður upptækur. 

Sá sem var stunginn krefur hinn um 2 milljónir í miskabætur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn eru ákærðir fyrir að fljúgast á. Til að mynda voru tveir menn ákærðir fyrir slagsmál á Barónsstíg fyrir tveimur árum. Þar var annar maðurinn vopnaður hafnaboltakylfu en hinn var með hníf.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV