Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

108 flöskur í vínkjallaranum - ekki grunur um misferli

17.09.2021 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ráðsmaðurinn á Bessastöðum mætti til vinnu í morgun til að gera könnun á birgðastöðu í vínkjallara eftir að fjölmiðlar greindu frá ásökunum hæstaréttarlögmanns um að mikið magn víns hefði verið tekið úr kjallaranum til einkabrúks. Þetta kemur fram í svari skrifstofustjóra hjá forseta Íslands við fyrirspurn fréttastofu. Forsetaembættið á 108 vínflöskur, 253 bjóra og 50 flöskur af desertvíni og sterku áfengi. Ekki hefur vaknað grunur um misnotkun starfsmanns sem tengja má áfengiskaupum.

Forsaga málsins er á þá leið að Sigurður G. Guðjónsson skrifaði harðorðan pistil í vikunni þar sem hann sagðist hafa fengið það staðfest með óyggjandi hætti að nokkuð magn af víni hefði á umliðnum árum verið tekið úr vínkjallara Bessastaða til einkabrúks.  Eftir að visir.is spurðist fyrir um málið ákvað forsetaembættið að kanna vínbirgðastöðu.

Sú könnun fór fram í dag. Forsetaembættið á 108 flöskur af léttvíni og hefur á árunum 2010 til 2020 keypt léttvín fyrir 17 milljónir króna.  50 flöskur eru til af sterku áfengi og desertvíni. Á tímabilinu 2010 til 2020 hefur embættið keypt slíkt vín fyrir tæplega 780 þúsund krónur. Það eru síðan til 253 flöskur af bjór eða miði á Bessastöðum og hefur embættið keypt slíkt fyrir 1,1 milljón króna á árunum 2010 til 2020. Alls nema áfengiskaupin á tímabilinu tæplega 19,5 milljónum króna.

Í svari frá skrifstofustjóra á skrifstofu forseta Íslands segir enn fremur að áætlað sé að 8.000 gestir komi árlega á Bessastaði og þiggi þar einhverjar veitingar. Ekki sé sérstaklega haldið utan um það hve margir þiggi áfengan drykk „en þeir skipta þúsundum á ári hverju“.

Algengast sé að léttvín sé veitt en það komi fyrir að boðið sé upp á sterkt áfengi á smærri viðburðum. Tekið er fram að sumt af því sterka áfengi sem keypti hafi verið sé íslensk framleiðsla sem hafi síðan verið nýtt í kynningarskyni í móttökum forsetans í opinberum heimsóknum utanlands. „Ekki hafa kviknað grunsemdir innan embættisins um misnotkun starfsmanns sem tengja má áfengiskaupum.“

Fréttin hefur verið uppfærð. Heildarupphæð áfengiskaupa var misrituð sem kaup á sterku áfengi og desertvíni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV