Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þótti hegðun Angjelins í ferðinni norður vera undarleg

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Fjórði dagur aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu hefur farið fram á allnokkrum tungumálum í morgun; spænsku, rússnesku, litháísku og albönsku. Meðal vitna voru menn sem voru sagðir hafa verið fluttir hingað til lands sem lífverðir Íslendingsins sem var um tíma grunaður í málinu. Einn þeirra, spænskur karlmaður, sagðist hins vegar hafa komið hingað til að opna sauna-stað með Íslendingnum.

Maðurinn gaf skýrslu frá Tenerife í gegnum Teams. Hann sagði kynni sín við Angjelin Sterkaj, sem hefur einn játað sök í Rauðagerðismálinu, takmarkast við snjósleðaferð fyrir norðan sem ítrekað hefur borið á góma í réttarhaldinu og var farin skömmu fyrir morðið.  

Honum fannst þessi snjósleðaferð hafa verið skrýtin, ekki síst vegna hegðunar Angjelíns.  „Þessi þvælingur á honum, að fara norður og svo suður og aftur norður, var skrýtinn.“ Hann hefði fyrst frétt af morðinu í fjölmiðlum og þá heyrt af því að félagi sinn hefði verið handtekinn. 

Hann kvaðst ekki hafa viljað hitta Angjelin eftir að hafa frétt af morðinu og jafnvel falið sig fyrir honum þar sem hann hefði strax grunað að Angjelin hefði eitthvað haft með morðið að gera.

Annar af þessum meintu lífvörðum var spurður af verjanda Angjelins út í tösku sem hann var með á leiðinni heim úr snjósleðaferðinni. Vitnið kannaðist við töskuna enda hefði taskan verið frá eftirlætis tískumerki hans.

Þegar verjandinn spurði hvort það vissi hvað hefði verið í töskunni spurði það á móti: „Veistu hvað ég er með í vösunum?“ Og með þeim orðum lauk vitnaskýrslunni.