Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Spennandi að leyfa Helmingi að geta af sér afkvæmi

16.09.2021 - 09:17
Sérkennilegur hrútur fæddist á Borgarfirði eystra í vor og kom enn sérkennilegri af fjalli nú í haust. Hrúturinn er eins og tveimur ólíkum skepnum hafi verið skeytt saman eftir endilöngu og ráðunautur telur að þarna sé á ferð afar sjaldgæft fyrirbæri.

Á bænum Njarðvík við Borgarfjörð eystra býr Andrés Hjaltason. Hann ætlar að sýna okkur hrútinn Helming. Þetta er enginn venjulegur hrútur, hægri hliðin er hvít en sú vinstri svört. 

„Hann var nefnilega dálítið vankaður þegar hún bar. Hann var alltaf með svona skakkan haus út á aðra hliðina og var það í nokkra daga. Þess vegna fórum við að skoða hann betur og sáum þá þessa litasamsetningu í honum. Ekkert meira með það heldur var honum bara sleppt í vor. En svo þegar hann kom í rétt í haust þá var hann kominn með horn öðrum megin en kollóttur hinum megin og þá fannst manni þetta enn þá merkilegra að þetta skyldi vera til. Sérstaklega alveg frá snoppu og aftur á dindil er bara alveg reglustika. Það er bara svart öðrum megin og hvítt hinum megin. Fæturnir eru hvítir öðrum megin og svartir hinum megin. En það er ekki eins greinilegt að sjá á bakinu og ekki fram á haus," segir Andrés Hjaltason.

„Það er nú kannski líklegasta kenningin að þarna hafi farið af stað tvö frjóvguð egg sem hafi svo runnið saman í móðurkviði og myndað eitt fóstur. Þetta er kallað kímera á erfðafræðimálinu og er mjög sjaldgæft en þekkist þó í dýraríkinu,“ segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðunautur hjá RML.

Helmingur verður ekki sendur í sláturhús enda þykir tvískiptur pungurinn á honum spennandi. Eistun eru misstór. „Það væri alla vega til að byrja með mjög spennandi að semja við bóndann um að setja hrútinn á og prófa að setja ýmsa liti af ám undir hann og sjá hvað gerist. Hvort hann er frjór, kannski fyrir það fyrsta og svo hvaða litasamsetningar og hornalag kemur undan honum. Hvort hann er frjór kannski öðrum megin og ekki hinum megin. Það er möguleiki að það koma sáðfrumur frá tveimur mismunandi eistum með mismunandi erfðaeiginleika,“ segir Guðfinna Harpa. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV