Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sótt að lögreglumönnum undir lok réttarhaldanna

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagðist ekki geta tjáð sig um meint tengsl Armando Beqiri við skipulagða glæpastarfsemi vegna rannsóknarhagsmuna. Þetta kom fram í skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Rauðagerðismálinu. Verjandi Claudiu Sofiu Carvahlo gekk nokkuð hart fram gegn lögreglumanni sem kom fyrir dóminn. Hann gagnrýndi að Claudia skyldi ekki hafa fengið að hafa túlk eða verjanda með sér í vettvangsferð sem hún fór í með lögreglu.

Skýrslutökum lauk á tólfta tímanum í dag og voru Margeir og lögreglumaðurinn meðal þeirra síðustu.

Verjandi Claudiu Sofiu Carvahlo, sem er ákærð fyrir að hafa látið Angjelin Sterkaj vita af hreyfingu á bílum Armando Beqiri, gerði alvarlegar athugasemdir við störf lögreglu þegar Claudia fór í vettvangsferð. Hann sótti nokkuð hart að lögreglumanni sem kom fyrir dóminn og spurði hvers vegna Claudia hefði ekki fengið að hafa verjanda eða túlk í þessari ferð.

Lögreglumaðurinn sagði að þáverandi verjandi hennar hefði verið látinn vita í gegnum síma. Ekki hefði verið talin ástæða til að hafa túlk með í för þar sem Claudia talaði ágætis íslensku. Verjandinn var ósáttur við ummæli og sagði þetta hafa verið einu skýrslutökuna þar sem túlkur var ekki með Claudiu. Þá undraðist hann að þáverandi verjandi Claudiu skyldi hafður með í skýrslutöku eftir að hún hafði óskað eftir nýjum verjanda.

Verjandi Angjelin Sterkaj beindi spurningum sínum til Margeirs Sveinssonar og vildi fá frekari skýringar á ummælum hans á blaðamannafundi.  Þar sagði Margeir að Armando hefði möguleg tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.  Margeir sagði í skýrslutöku sinni að til að vernda rannsóknarhagsmuni gæti hann ekki tjáð sig um málið. 

Verjandi Murats sótti nokkuð hart að Margeiri vegna samantektarskýrslu sem unnin var um aðgerðir lögreglu í málinu. Hann vildi vita af hverju ummælum Angjelins og Claudiu í lokaskýrslum sínum hefði verið sleppt en þar sögðu þau bæði að skipunin um að fylgjast með bílum Armando hefði komið frá Angjelin, ekki Murat eins og honum er gefið að sök í ákæru.  Margeir sagðist ekki geta svarað því.

Munnlegur málflutningur í málinu fer fram eftir viku, fimmtudaginn 23. september.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV