Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sagði deilurnar byggðar á lygasögum Angjelins

16.09.2021 - 10:15
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Íslenskur karlmaður, sem var félagi Armando Beqiri, sagði á fjórða degi réttarhaldanna í Rauðagerðismálinu að deilur Armando og Angjelin Sterkaj ættu rætur sínar að rekja til lygasagna Angjelins . Það væri af og frá að Armando hefði verið á eftir Íslendingnum sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Gamalt spillingarmál innan úr fíkniefnalögreglunni kom óvænt upp í skýrslutökunni.

 

Íslenski maðurinn var í byrjun skýrslutökunnar beðinn um að lýsa sambandi sínu og Armando. Hann sagði að þeir þekktust í gegnum sameiginlega vini og væru fínir félagar. Tengsl hans við Angjelin væru lítil en Íslendinginn hefði hann þekkt frá fornu fari og þeir könnuðust við hvor annan.

Saksóknari spurði hann út í deilur milli Armando og Angjelins.  Íslenski maðurinn sagði Angjelin hafa búið þetta til upp á eigin spýtur og deilurnar hefðu verið byggðar á einhverju bulli. „Þetta kemur allt frá honum og er allt ósatt, hann bjó þetta til frá A til Ö.“

Hann sagðist ekki halda að Armando hefði tekið þessu alvarlega en honum hefði ekki þótt þægilegt að fá alltaf einhverjar lygasögur í andlitið. „Ég held að allt þetta mál byggi á lygasögum frá Angjelin,“ sagði íslenski maðurinn. Þegar hann var beðinn um að segja nánar frá þessum lygasögum kvaðst hann ekki muna þær orðrétt. 

Hann mundi hins vegar eftir fundi á Mathúsi Garðabæjar með Íslendingnum og þremur félögum hans. Á þeim fundi hafi Íslendingurinn spurt hvort það væru einhver vandræði milli hans og Armando.  Vitnið kvaðst hafa fullvissað Íslendinginn að svo væri ekki, þau vandræði ættu sér upptök hjá lygasjúka vin hans, Angjelin. 

Hann sagði að Armando hefði vissulega verið í einhverju uppnámi á föstudeginum fyrir morðið en allt hefði verið fallið í ljúfa löð á laugardeginum, Armando þá verið hlæjandi og ekki tekið þessu ástandi alvarlega. „Hann gat verið snöggur upp og jafn fljótur niður í skapinu,“ sagði vitnið.

Fyrir dóminn voru lögð skilaboð á samskiptaforritinu Signal þar sem rætt var um hvort ráðast ætti í aðgerðir gagnvart Angjelin. Vitnið sagði að Albanir notuðu oft stór orð sem ekki væri mikil innistæða fyrir. Þegar verjandi Angjelin spurði hvort Armando hefði verið á eftir Íslendingnum, sagði vitnið að ekki væri eitt sannleikskorn til í því.  

Þegar verjandinn vildi spyrja út í dóm  sem vitnið hlaut í tengslum við upplýsingaleka úr fíkniefnadeild lögreglunnar fyrir nokkrum árum, stoppaði dómarinn spurninguna og verjandinn dró hana til baka.   

Maðurinn hlaut þar níu mánaða fangelsi og fíkniefnalögreglumaður var dæmdur í 15 mánaða fangelsi. Í ákæru kom fram að lögreglumaðurinn hefði upplýst vitnið um að hann hefði ekki heyrt á nafn hans minnst hjá samstarfsmönnum sínum hjá fíkniefnadeild lögreglunnar.

Um svipað leyti og það mál kom upp lá annar fíkniefnalögreglumaður undir grun um spillingu. Sá var sakaður um að hafa átt í óeðlilegu sambandi við Íslendinginn sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi í Rauðagerðismálinu og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum.

Og það voru gögn úr því máli sem lekið var á netið í byrjun árs og hafa öðru hvoru verið nefnd sem hugsanleg rót deilnanna milli Armando annars vegar og Angjelin og Íslendingsins hins vegar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV