Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðsmaðurinn kallaður heim í vínbirgðakönnun

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Ráðsmaðurinn á Bessastöðum verður kallaður úr fríi í skyndi til að gera könnun á birgðastöðunni í vínkjallaranum á staðnum. Hæstaréttarlögmaður fullyrti fyrr í vikunni að mikið magn víns hefði verið tekið úr kjallaranum til einkabrúks.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Árna Sigurjónssonar, skrifstofustjóra embættis forseta Íslands, við fyrirspurn frá fréttastofu. Þar kemur einnig fram að upplýsingar um vín- og matarbirgðir í eldhúsi Bessastaða eru yfirleitt ekki teknar saman með formlegum hætti en staðarhaldari og ráðsmaður gera viðvart ef drykki vantar í eldhúsið og fer starfsmaður embættisins þá í verslun til að afla þeirra eða pantar þá og lætur senda þá.

Tilurð málsins er á þá leið að 13. september síðastliðinn skrifaði Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður harðorðan pistil á Fésbókarsíðu sína þar sem hann gagnrýndi embætti forseta Íslands meðal annars fyrir að blanda sér í umræðuna um meinta kynferðisafbrotamenn innan raða íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Í pistlinum nefndi Sigurður það ennfremur að hann hefði fengið það staðfest með óyggjandi hætti að nokkuð magn af víni hefði á umliðnum árum verið tekið úr vínkjallara Bessastaða til einkabrúks, eins og það er orðað.

Í framhaldi staðfesti skrifstofustjóri forsetaembættisins við Vísi að ekki hafi komið til rannsóknar mál innan embættisins vegna þess að vín hafi verið tekið til einkanota úr vínlager. En vínbirgðastaða yrði könnuð í þessari viku í framhaldi af fyrirspurn miðilsins.

Slík birgðakönnun er jafnan framkvæmd af ráðsmanninum á Bessastöðum, Helgu Einarsdóttir. Hún mun hins vegar vera í fríi þessa vikuna og stödd utan Reykjavíkursvæðisins. Hvar ráðsmaðurinn er niður kominn gat skrifstofustjóri ekki sagt til um en hann staðfesti að hún yrði kölluð heim úr fríinu fyrir næstkomandi helgi til að sjá um áðurnefnda birgðakönnun.