Ótrúlegt að finna föður sinn eftir 37 ára leit

Mynd: RÚV / RÚV

Ótrúlegt að finna föður sinn eftir 37 ára leit

16.09.2021 - 15:48

Höfundar

„Fyrsta hugsun alla morgna er: Ég er búin að finna hann,“ segir Heiða B. Heiðarsdóttir. Eftir nær fjörtíu ára árangurslausa leit rættist loksins draumur hennar um að finna blóðföður sinn. Þau eru í dag í miklum símasamskiptum og til stendur að fara í heimsókn til hans til Bandaríkjanna og hitta loksins stórfjölskylduna.

Heiða B. Heiðarsdóttir, sem rekur vefverslunina Pomp og prakt, var ættleidd aðeins sex daga gömul. Blóðmóðir hennar var íslensk og blóðfaðir bandarískur. Hún er alin upp við þá vitneskju að hún sé ættleidd og þótti það ekkert stórmál, en þegar hún sjálf fór að eignast börn kviknaði hjá henni forvitni um uppruna hennar. Það tók hana aðeins örskamma stund að finna móður sína, en hún var tvítug þegar hún hóf leit að föður sínum sem bar ekki árangur í tæp fjörutíu ár. Hún hefur komist að því að nafnið sem henni var sagt að hann bæri var rangt en aðrar upplýsingar sem móðir hennar veitti stóðust.

Trúir ekki að móðir hennar hafi viljandi sagt ósatt

Hún er ekki reið yfir því í dag, en segir að móðir sín hafi verið bæði lygin og óheiðarleg um það sem hana og ættleiðinguna snerti. En hún er fyrir margt þakklát. „Hún hafði vit á því að finna bestu foreldra í heimi til að ala mig upp. Ég er mjög þakklát fyrir það,“ segir Heiða í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. 

Blóðmóðir hennar lést í desember en Heiða segir að hún hafi átt sér leyndarmál sem minningar hafi brenglað. „Ég þori ekki að fullyrða um það en ég vil trúa því að hún hafi ekki sagt mér ósatt viljandi,“ segir Heiða. Hún er þess þó fullviss að móðir hennar hafi á einhverjum tímapunkti þekkt nafn hans, því þau voru saman í meira en hálft ár. „Hún vissi alveg hver hann var,“ sagði Heiða. En nafnið sem henni var gefið upp var ekki rétt nafn föður hennar, sem flækti leið hennar sannarlega.

Búin að eyða allri ævinni í að leita að röngum manni

„Ég er búin að eyða allri ævinni í að leita að Robert Monroe sem er ekki til,“ segir Heiða. Hún tók loks próf á Ancestry og fékk í lið með sér hóp fólks sem vinnur launalaust við að aðstoða í slíkri leit. Hún hafði áður fengið veður af því að þessi hópur skilaði árangri með leit sinni. „Ég var að hlusta á amerískt morð-podcast og komst að því að þetta non profit dæmi fann út hver Golden State morðinginn væri,“ segir hún sposk.

Og leitin bar árangur. Hún fékk aðstoð frá konu og niðurstöður sem sögðu að hún ætti þar líklega blóðfjölskyldu, og að tveir karlmenn í henni kæmu til greina sem faðir hennar, miðað við aldur. Annar þeirra hafði verið í hernum, svo það hlaut að vera hann. „Þegar hún fékk loks niðurstöður og sá að ég deili 26% DNA með bróður hans vissi ég að ég væri búin að finna hann,“ rifjar hún upp, eftir 37 ára leit.

„Búin að ímynda mér þetta alla ævi“

Hún hafði lengi beðið eftir þessari stund og tilfinningin var óvænt og ólýsanleg. „Ég hélt ég myndi vita hvernig mér myndi líða því ég er búin að ímynda mér þetta alla ævi,“ segir Heiða. Hún fann hvernig hýrnaði yfir henni. „Fólk hefur stoppað mig úti á götu því ég brosi út að eyrum. Fyrsta hugsunin þegar ég vakna á morgnanna er: Ég er búin að finna hann.“

En tilfinningar voru blendnar. „Þegar ég fékk fyrsta tölvupóstinn frá honum fór ég inn á klósett og kastaði upp,“ segir hún. En pósturinn hlýjaði henni líka um hjartarætur. „Þetta var rosalega fallegur tölvupóstur. Þetta kom honum rosalega í opna skjöldu, hann vissi ekkert en mér leið eins og ég væri velkomin í líf hans, bara á að lesa hann.“

Og Heiða var fegin að faðir hennar væri á lífi og tæki henni opnum örmum. „Hann var í hernum og hefði getað dáið, hann gæti verið á elliheimili með alzheimer. Kannski vill hann ekkert með mig hafa, kannski býr hann í pappakassa,“ hafði hún hugsað fram að þessu. „En hann er bara frábær. Gríðarlega opinn og til í þetta, forvitinn um líf mitt og barnanna og barnabarna.“

Heimsókn til Íslands á döfinni

Faðir Heiðu er giftur og á tvær dætur sem Heiða hefur enn ekki kynnst. „Ég er ekki byrjuð að tala við þær, ég vil aðeins kynnast honum betur,“ segir hún. Amma hennar og afi voru bæði ítölsk en fluttu til Bandaríkjanna frá Napólí á fjórða áratugnum. Nú býr föðurfjölskyldan í Norður-Karólínu. „Næsta skref er að halda áfram að tala við hann. Við tölum saman einu sinni tvisvar í viku í tvo, þrjá klukkutíma í einu,“ segir Heiða. „Það er ekkert erfitt að tala við hann. Hann gefur mikið af sér, hlustar af ákefð og þau samskipti eru mjög góð.“

Til stendur að hann heimsæki Ísland á næsta ári, en fyrst ætlar Heiða út að hitta hann yfir kaffibolla. 

Andri Freyr Viðarsson og Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddu við Heiðu B. Heiðars í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.