Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýtt frá Dr Gunna, Pale Moon og Bjartmar og Bergrisunum

Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir / 2021

Nýtt frá Dr Gunna, Pale Moon og Bjartmar og Bergrisunum

16.09.2021 - 17:30

Höfundar

Undiraldan er einungis á netinu þessa dagana vegna komandi kosninga en það stoppar ekki tónlistarfólkið í útgáfunni. Þessa viku heyrum við ný lög frá jazzistanum Önnu Grétu, þungarokkurunum í Dimmu, ópólítískum Bjartmari ásamt Bergrisunum, rússnesk-íslensku Pale Moon, tilraunakenndri Tunglleysu, hljómsveit Dr. Gunna, hlaðvarpsstjörnunni Flosa og áhrifavaldabandinu Superserious.

Bjartmar og Bergrisarnir - Bergrisablús

Bjartmar og Bergrisarnir hafa sent frá sér ópólítískan slagara sem heitir Bergrisablús en lag og texti er eftir Bjartmar, sem einnig syngur. Bergrisasveitin er að þessu sinni skipuð þeim Bassa Ólafssyni á trommur og slagverk, Júlíusi Frey Guðmundssyni á bassa, Birki Rafni Gíslasyni á gítara og Halldóri Smárasyni á píanó og Hammond-orgel.


Dr. Gunni - Aumingi með Bónuspoka

Út eru komnar stuttskífurnar Aumingi með bónuspoka og Ég er í vinnunni á Spotify og Youtube en þær eru af væntanlegri 12 laga breiðskífu Dr. Gunna sem kemur út á Spotify þann 15. október nk. og heitir Nei, ókei.


Anna Gréta - Nightjar in the Northern Sky

Náttfari á norðurhimni ,eða Nightjar in the Northern Sky er fyrsta lagið sem kemur út af samnefndri plötu frá píanóleikaranum, söngkonunni og lagahöfundinum Önnu Grétu. Platan er sú fyrsta frá Önnu Grétu og er gefin út hjá hinni virtu ACT jazzútgáfu í Þýskalandi. Á plötunni kemur Anna Gréta í fyrsta skipti fram sem söngkona ásamt því að spila á píanó, semja lögin og útsetja.


Tunglleysa - Sortufen

Tunglleysa sendi frá sér samnefnda plötu þann 10. september. Hljómsveitin eða verkefnið Tunglleysa er skipuð þeim Pan Thorarensen tónlistarmanni og Þorkatli Atlasyni tónskáldi og gítarleikara en þeir hafa áður sent frá sér plötuna Flugufen. Þeim til aðstoðar á nýju plötunni eru söngkonurnar Mari Kalkun og Katrína Mogensen, Caudio Puntin á klarinett og rafhljóð, Tim Sarhan á trommur, Sebastian Studnitzky á trompet, Júlía Mogensen á selló og Borgar Magnason á kontrabassa. Tunglleysa var hljóðrituð í Berlín og Reykjavík.


Dimma - Nætursól

Hljómsveitin Dimma hefur sent frá sér lagið Nætursól, sem er upphafslag plötu þeirra Þögn sem hefur fengið frábæra dóma víðsvegar og fór einnig í fyrsta sæti Tónlistans yfir mest seldu plötur landsins í sumar. Það er fimmta breiðskífa Dimmu á ferlinum til að ná toppsætinu á sölulistum en sveitin heldur útgáfutónleika í Hörpu þann 8. október.


Flosi - Ég veit

Flosi Þorgeirsson sagnfræðingur, tónlistarmaður og hlaðvarpsstjórnandi sendir fljótlega frá sér sína fyrstu sólóplötu. Ég veit er annað lagið sem kemur út af plötunni en áður sendi Flosi frá sér slagarann Myrðir sálir.


Superserious - Let's Hurt

Íslenska áhrifavaldabandið superserious er að gefa frá sér nýtt lag af væntanlegri plötu sem kemur út á morgun og heitir nafnið - Let's Get Serious. Sveitin er skipuð þeim Daníel Jóni Jónssyni söngvara og gítarleikara, Hauki Jóhannessyni gítarleikara, Kristni Þór Óskarssyni á bassa, Helga Einarssyni á trommur og Ingeborg Andersen sem syngur bakraddir.


Pale Moon - Strange Days

Íslensk-rússneska sveitin Pale Moon hefur sent frá sér lagið Strange Days en lagið er að sögn dúettsins kraftmikið, fjörugt og upplífgandi og er alveg tilvalið til að loka sumrinu og fara inn í haustið með bros á vör. Lagið er samið og hljóðritað af meðlimum sveitarinnar þeim Árna Guðjónsson og Nataliu Sushchenko en hljóðblöndun og tónjöfnun var framin af Bjarna Þór Jenssyni og Bassa Ólafssyni.