Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Marglytta veldur afföllum í fiskeldi eystra

16.09.2021 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Marglytta hefur valdið affföllum í fiskeldi í Reyðarfirði að undanförnu. Brugðist er við með því að setja svonefnd pils utan um sjókvíarnar svo að hún nái ekki að ánetjast og brenna fisk í kvíunum.

Marglytta getur valdið usla í fiskeldi og hefur gert það í Reyðarfirði upp á síðkastið. Brugðist er við með því að setja svonefnd pils utan um sjókvíarnar svo að marglyttan nái ekki að  komast með þreifarana í fiskinn.
Eldið eystra hefur þó orðið fyrir nokkrum skaða.  

 Jens Garðar Helgason forstjóri Laxa fiskeldis  í Reyðarfirði segir marglyttutímann vera frá  miðjum ágúst og fram undir miðjan október. Sum árin sé lítið af marglyttu en önnur ár mun meira. Í ár hefur hún valdið fiskeldinu fyrir austan skráveifu. 

„Það hefur verið svolítið af marglyttu hérna í firðinum núna en við höfum brugðist hratt við og við setjum svokölluð pils utan um. Við skolum hana af og hreinsum netin svo að hún geti ekki ánetjast því að þegar hún ánetjast þá getur hún brennt fiskinn. Það er náttúrulega þannig að þegar það gerist þá vankast fiskurinn og verður meðvitundarlaus og flýtur upp í yfirborðið og stór hluti af fiskinum jafnar sig en ekki allur því miður."

Þörungablómi hefur verið mikill í Seyðisfirði og einnig nokkur í Reyðarfirði. Jens segir þörungana einna helst hafa verið í Eskifirði og innst inni í Reyðarfirði. Þörungablómi hafi ekki verið fiskeldinu fyrir austan til vandræða.

„Þannig að það hefur ekki verið mikið af honum og lítið sem ekki neitt hérna utar í firðinum þar sem við erum með stöðvarnar þannig að við höfum ekki orðið mikið vör við þetta á stöðvunum hjá okkur.“