Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hjúkrunarfræðingar kvíða vetrinum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á fjölskyldulíf hjúkrunarfræðinga sem gæta sóttvarna sinna umfram aðrar starfsstéttir. Dæmi eru um að hjúkrunarfræðingar hafi flutt af heimilum sínum til að geta verið í sjálfskipaðri sóttkví á milli vakta og þá eru dæmi um að börn hjúkrunarfræðinga hafi ekki fengið að fá vini í heimsókn til að halda smithættu á heimili í lágmarki.

Álag á hjúkrunarfræðinga í faraldrinum var meðal þess sem var rætt á Hjúkrunardeginum í dag. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir félagsmenn kvíða vetrinum.

„Þeir auðvitað gera það. Það er þreyta í mannskapnum og við heyrum það mjög vel á þessu málþingi hér í dag. En auðvitað tökum við þeim verkefnum sem þarf að vinna, við höfum alltaf gert það. En auðvitað er þetta bara komið gott. Við þurfum að geta verið með hefðbundið líf annars vegar og stundað vinnu hins vegar,“ segir Guðbjörg.

Hún segir að algengt hafi verið meðal hjúkrunarfræðinga í fyrstu bylgjum faraldursins að fara í sjálfskipaða sóttkví.

„Það hefur auðvitað áhrif á bæði maka og börn. Við erum með dæmi um hjúkrunarfræðing sem fór í fimm vikur burtu frá fjölskyldu. Maður heyrði um að maki viðkomandi dró sig í hlé og jafnvel vann heima þó hann hefði möguleika á að fara í vinnu. Börnin máttu ekki koma heim með vini að leika. Svona daglegir hlutir. Viðkomandi hjúkrunarfræðingur fór ekki í búðir eða neitt sem við myndum segja að væri í lagi samkvæmt þágildandi sóttvarnareglum því að viðkomandi var að gera allt sem í hans valdi stóð til að forðast smit.“

Guðbjörg segist óttast að þetta hafi þau áhrif að hjúkrunarfræðingum fækki enn frekar, þeir séu þegar allt of fáir.

„Af hverju áttu að leggja þetta starf á þig þannig að fjölskylda og allt sé undir?“