Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hermenn til aðstoðar lögreglu í Bogota

epa09470802 Groups of Colombian soldiers provide security in the streets of Bogota, Colombia, 15 September 2021. The Colombian government deployed some 360 soldiers from the Military Police in Bogota to patrol and reinforce security in the city, where the numbers of robberies and homicides have skyrocketed in recent months.  EPA-EFE/Carlos Ortega
 Mynd: EPA-EFE
Á fjórða hundrað hermönnum hefur verið falið að aðstoða lögregluna í Bogota, höfuðborg Kólumbíu við að halda uppi lögum og reglu. Morðum og ofbeldisverkum hefur fjölgað þar til muna að undanförnu. Ástandið er sagt vera afleiðing COVID-19 faraldursins.

Sextán þúsund lögreglumenn starfa í Bogota. Borgaryfirvöld áætla að bæta þurfi að minnsta kosti tíu þúsund við til að koma ástandinu í eðlilegt horf. Stjórnvöld brugðust við því í vikunni með því að senda rúmlega 350 hermenn út í hverfin þar sem glæpatíðnin er mest. Þeir eru með alvæpni og hafa leyfi til að handtaka afbrotamenn.

Ástandið í borginni er rakið til þess að staða efnahagsmála hefur versnað í Kólumbíu að undanförnu og atvinnuleysi eykst hratt. Það er einkum er rakið til COVID-19 faraldursins sem leikið hefur atvinnulífið illa.

Það sem af er ári hafa 754 morð verið skráð í borginni. Tilkynnt hefur verið um yfir 65 þúsund rán þar sem skotvopnum var beitt í mörgum tilvikum. Ástandið er sagt vera hið versta frá árinu 2016, þegar friðarsamkomulag var gert við uppreisnarmenn og skæruliða í landinu. 

Ekki eru allir á eitt sáttir um að hernum sé skipað að koma lögreglunni til aðstoðar í Bogota. Claudia Lopez borgarstjóri tekur undir að samkvæmt stjórnarskránni geti hermenn ekki gengið í störf lögreglunnar, en ekkert banni að þeir séu henni til aðstoðar. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV