Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eldgosið í Geldingadölum langlífasta gos aldarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Helgason - RÚV
Í dag urðu þau tímamót í eldgosinu í Geldingadölum að það hefur nú staðið lengur en eldgosið í Holuhrauni. Þar með er það langlífasta gos á 21. öld.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands greinir frá þessu á Facebook síðu sinni. Í jarðfræðilegum skilningi er gosið enn sem komið er örstutt því í jarðfræðilegu tilliti er öld augnablik eitt. Samkvæmt nýjustu mælingum á flatarmáli hraunsins er það orðið um 4,6 ferkílómetrar að stærð og rúmmál þess um 142 milljónir rúmmetra. Til samanburðar er Holuhraun um 85 ferkílómetrar að stærð. Eftir því sem liðið hefur á gosið hefur hraunflæði sveiflast nokkuð og í júlí lækkaði rennslið hressilega og er nú um 8,5 rúmmetrar á hverri sekúndu. 

„181 dagur er í dag liðinn síðan gosið hófst þann 19. mars. Þar með er eldgosið orðið langlífara en eldgosið í Holuhrauni, sem varð í 180 daga. Gosið þar hófst 31. ágúst 2014 og lauk 27. febrúar 2015. Surtseyjareldar eru almennt taldir langlífasta eldgos Íslandssögunnar. Eldgosið þar stóð yfir með hléum frá nóvember 1963 fram í júní 1967.“ segir á Facebook síðu hópsins.

Vísindamenn segja ógjörning að segja til um hversu lengi gosið stendur. Einn þeirra er Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.

„Það er nánast ógerningur að segja neitt til um það og ekkert, í raun og veru, sem við mælum sem bendir til þess að gosi sé að ljúka eða að það muni halda áfram. Það er ekkert sem getur sagt okkur til um það. Þessi uppkoma gossins aftur núna er góð lexía í því. Það er búið að vera goshlé í níu sólarhringa og margir hefðu látið sér það duga til að segja að nú væri gosi lokið. En það er ekki svo og það tók sig upp af sama krafti og verið hefur,“ sagði Páll í sjónvarpsfréttum um helgina. 

Páll segir að vísindamenn hafi lært gríðarlega margt af gosinu á Reykjanesskaga. Menn sitji núna sveittir við greinarskrif um allt það sem gosið hafi kennt þeim. 

„Þetta er fyrsta gosið sem við sjáum á þessari grein flekaskilanna á Reykjanesi. Út af fyrir sig er það verðmætt. En það sem er líka við þetta gos er að þetta er á ólíklegasta stað á öllum Reykjanesskaganum fyrir gos. Fyrir ári síðan hefðum við sennilega aldrei giskað á að þetta yrði næsti gosstaður. Þetta er milli virkustu eldstöðvakerfanna á svæðinu. Milli annars vegar Reykjaness og Svartsengis og hins vegar Krýsuvíkur. Þau kerfi eru miklu virkari þegar til langs tíma er litið. Þetta kennir okkur að ólíklegir atburðir gerast annað slagið,“ segir Páll.