Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Afganskt unglingalandslið kvenna komið til Pakistan

16.09.2021 - 01:39
epa09469470 Afghanistan's women's soccer team arrive at the Pakistani Football Federation office after crossing into Pakistan through Toorkham border with valid visas, in Lahore, Pakistan, 15 September 2021. The arrival of the women soccer team is believed to be part of an exodus by Afghans who fear they won't be given fair grounds to continue their profession or activities which were deemed 'un-Islamic' by the Taliban in their first tenure.  EPA-EFE/RAHAT DAR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stúlkur úr unglingalandsliði Afganistan í knattspyrnu eru komnar til Pakistan ásamt fjölskyldum sínum. Fjöldi kvenna sem hefur staðið framarlega í menningarlífi og íþróttum yfirgaf Afganistan eftir valdatöku Talibana í síðasta mánuði.

Alls telur hópurinn sem kominn er til landsins 81 manneskju og 34 eru væntanleg til viðbótar á morgun, fimmtudag. Stúlkurnar flúðu Kabúl í síðasta mánuði án vegabréfa og annarra pappíra.

Í bréfi sem þær sendu Imran Khan, forsætisráðherra Pakistan kom fram að þeim stæði mikil ógn af hótunum Talibana um að fá ekki að stunda íþrótt sína. Þær fengu þó ekki að fara inn í Pakistan fyrr en mannréttindasamtökin Fótbolti fyrir frið þrýstu á þarlend stjórnvöld að veita þeim vegabréfsáritun.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir starfsmanni pakistanska knattspyrnusambandsins að hópurinn hafist nú við í höfuðstöðvum þess í borginni Lahore í austurhluta landsins. Þar dvelja þær í þrjátíu daga uns þær geta sótt um hæli í þriðja landi. 

Fleiri konur sem hafa staðið framarlega í íþróttum og menningarlífi yfirgáfu Afganistan í síðasta mánuðu, þeirra á meðal poppstjarnan Aryana Sayeed og kvikmyndaleikstjórinn Sahraa Karimi.

Á fyrri valdatíð Talibana var konum bannað að stunda íþróttir. Í síðustu viku lýsti Ahmadullah Wasiq, formaður menningarnefndar Talibana, því yfir að ólíklegt væri að afganskar konur fengju að stunda íþróttir áfram.

Það þætti hvorki viðeigandi né nauðsynlegt. Hann sagði hættu á að við íþróttaiðkun sæjust andlit og líkamar kvenna og að hvorki Islam né íslamska Emírveldið gætu sætt sig við slíkt framferði.