Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

37 smit í gær en fækkar töluvert í sóttkví

16.09.2021 - 10:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
37 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, en þau voru 26 í fyrradag. Af þeim sem greindust smitaðir í gær voru 22 óbólusettir en 15 bólusettir. 23 voru utan sóttkvíar en 14 í sóttkví.

Þeim fækkar töluvert sem eru í sóttkví, þeir voru 733 í fyrradag en eru nú 633. Hins vegar fjölgar í einangrun úr 336 í 349. Samkvæmt covid.is eru enn sex á sjúkrahúsi og tveir á gjörgæslu.

Tíu af smitum gærdagsins voru á Reyðarfirði. Grunur kviknaði um smit í Grunnskólanum á Reyðarfirði í gær, skólanum var lokað og allir nemendur í 1.-3. bekk skimaðir, auk alls starfsfólks á heilsugæslunni á Reyðarfirði. Smit hefur nú verið staðfest bæði í grunnskólanum og á leikskólanum Lyngholti. Skólarnir verða báðir lokaðir í dag og öllum börnum og starfsfólki skólanna boðið í sýnatöku.