Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tilslakanir eru að hefjast í Sydneyborg

epa09468847 Members of the public wear face masks as they go about their daily lives in Marrickville, Sydney, Australia, 15 September 2021. Vaccination against COVID-19 is beginning to dampen down transmission of the virus in New South Wales, health authorities believe.  EPA-EFE/BIANCA DE MARCHI  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Borgaryfirvöld í Sydney í Ástralíu hyggjast draga úr samkomutakmörkunum í dag. Nú verður íbúum heimilt að yfirgefa heimili sín milli klukkan níu að kvöldi og fimm að morgni.

Jafnvægi hefur náðst í fjölgun smita og ríflega 80 prósent íbúa hafa fengið að minnsta kosti fyrstu bólusetningu við COVID-19.

Þrír mánuðir eru síðan strangt útgöngubann var sett í þessarri fjölmennustu borg Ástralíu. Gladys Berejiklian, ríkisstjóri Nýja Suður-Wales hvetur íbúa til varkárni þótt jafnvægi hafi náðst undanfarna daga.

Hún segir að frekari afléttingar samkomutakmarkana séu fyrirhugaðar í október þegar búist er við að 70% verði fullbólusett. Flestum íbúum Sydney er óheimilt að yfirgefa heimili sín nema til að kaupa í matinn, fara til læknis eða til að stunda útivist.

Þó má ekki fara lengra að heiman en sem nemur fimm kílómetrum. Skólar, öldurhús og veitingastaðir hafa verið lokuð síðan í seinnihluta júnímánaðar.

Ætlunin er að aflétta átján mánaða löngu banni við ferðalögum frá Ástralíu í desember en yfirvöld árétta að allar afléttingar eigi aðeins við um fullbólusett fólk. 

„Þetta er alveg svart-hvítt,“ segir Berejiklian. „Óbólusett fólk á ekki erindi á veitinga- eða kaffihús.“ Hún segist ekki vilja sjá að smitum taki að fjölga aftur en talið er viðbúið að stjórnvöld haldi áfram að grípa til viðamikilla samkomutakmarkana ef það gerist. 

Berejiklian varar við því að á meðan 20% landsmanna eru óbólusett geti smitum fjölgað og þar með sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum. Hún segir næstu mánuði verða mikla áskorun þótt hún bindi miklar vonir við að vel gangi að slíta útgöngubanninu. 

Finna þurfi jafnvægi milli þess að vernda heilbrigðiskerfið og þess að fólk geti farið frjálst ferða sinna hvert sem það kýs.