Þórólfur segir ákveðna áhættu fylgja hraðprófunum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að búast megi við að hraðpróf greini ekki öll kórónuveirusmit. Verið sé að taka ákveðna áhættu með því að leyfa allt að 1.500 manns að koma saman ef þeir hafa tekið hraðpróf. Hann segir góð og gild rök fyrir því að grímuskylda sé enn þar sem ekki sé hægt að viðhafa eins metra fjarlægð á milli fólks.

„Ég hef sagt það að hraðprófin eru ekki eins nákvæm og áreiðanleg og PCR-prófin. Þau geta hins vegar verið góð, maður þarf bara að skilja hvaða vankantar eru á þeim. En það er ein leiðin til að nýta sér það að það sé hægt að slaka meira á, en við þurfum bara að vera við því búin að hraðprófin nái ekki öllum,“ segir Þórólfur.

Hann segir ekki útilokað að stórar hópsýkingar komi upp á fjölmennum viðburðum þegar hraðprófin eru ekki áreiðanlegri en raun ber vitni. „Auðvitað getur það gerst. Það er sú áhætta sem við erum að taka. En við höfum ekki séð það gerast fram að þessu á svona viðburðum. Við erum alltaf að taka einhverja ákveðna sénsa, það er það sem þetta gengur út á.“

Hafa neitað mörgum um markaðsleyfi fyrir hraðpróf

Heilbrigðisráðuneytið gefur út markaðsleyfi fyrir hraðprófum sem standast skoðun Embættis landlæknis. Þórólfur segir að allmargar umsóknir hafi borist um slík leyfi.

„Og þá förum við bara yfir þau gögn sem liggja að baki áreiðanleika og öryggi prófanna. Við höfum neitað mjög mörgum prófum um markaðsleyfi á þeim grunni að rannsóknirnar séu ekki nógu öruggar og nákvæmar.“

Enn er grímuskylda þar sem ekki er hægt að viðhafa eins metra fjarlægð á milli fólks. Það hefur nokkuð verið gagnrýnt, meðal annars af hársnyrtum sem segjast þreyttir á að hafa þurft að bera grímu við störf sín í marga mánuði.

„Ég held að það eigi að vera þannig áfram,“ segir Þórólfur. „Þannig að í mínum huga á það að gilda áfram um þá sem eru að vinna mjög náið með ótengda einstaklinga.“

Nú hefur verið talað um að það séu ákveðnar þversagnir í þessu - fólk geti verið mjög nálægt hvoru öðru í ýmsum aðstæðum, ekki bara þessum. „Það er líka spurning um tímann sem fólk er í mikilli nálægð hvert við annað þannig að það er engin þversögn í því. Við erum algerlega sjálfum okkur samkvæm í því.“