Táknmálstúlkaðar kvöldfréttir: Gekk á gosbarminum

15.09.2021 - 18:45
Lokað var fyrir umferð að gosstöðvunum í dag þegar hraun tók að flæða niður í Nátthaga. Þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti að sækja tvo ferðalanga inn á gossvæðið í dag. Á vefmyndavél RÚV sást til göngumanns sem gekk upp á gígbarminn í Geldingadölum.

Allt að ár getur liðið þar til jarðgerð hefst að nýju í gas- og jarðgerðarstöð Sorpu eftir að mygla fannst í þaki og burðarvirki stöðvarinnar. Forsvarsmenn Sorpu telja að mistök hafi verið gerð við hönnun byggingarinnar. 

Börn í Sýrlandi eru svipt frelsi sínu, segir í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna.  Mæður þeirra hafa verið sviptar ríkisborgararétti, börnin búa við illan kost og komast ekki úr landi.

Tvískiptur hrútur við Borgarfjörð eystra þykir afar sérstakur, hvítur og hyrndur öðrum megin en svartur og kollóttur hinum megin. Ráðunautur telur að tvö egg hafi runnið saman í móðurkviði.

Tíu rafkettir eru til húsa á hjúkrunarheimili Hrafnistu. Deildarstjóri segir að þeir séu góð viðbót á heimilið, þeir gleðji íbúa og veiti mikilvæga nærveru, einkum þeim sem eru með heilabilanir. 

Kvöldfréttir hefjast klukkan sjö og eru táknmálstúlkaðar í spilaranum hér að ofan.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV