Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sagði Angjelin ekki hafa viljað sáttafund í deilu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Samstarfsmaður Armando Beqiri, sem gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Rauðagerði, fullyrti að Angjelin Sterkaj hefði logið því að Armando Beqiri væri reiður við Íslending, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum.  Hann hefði reynt að koma á sáttafund í deilunni en „mér finnst eins og Angjelin hafi ekki viljað að þessi fundur færi fram.“

Samstarfsmaðurinn sagðist hafa hringt í Íslendinginn á föstudeginum fyrir morðið eftir að heyrt af þessu. Tilgangurinn hafi verið  að sannfæra hann um að Armando hefði ekki horn í síðu hans. Ákveðið hafi verið að halda fund, drekka kaffi, hreinsa andrúmsloftið og fá menn til að slaka á.  Hans tilfinning í dag séu sú að Angjelin hafi ekki viljað að þessi fundur færi fram  „því þá kæmi ljós hverju hann hefði logið.“

Hann kannaðist við að Armando hefði orðið reiður við Angjelin í símtali á fimmtudeginum en kvaðst ekki hafa skilið hvað fór þeirra á milli.  Hann hefði unnið með Armando kvöldið sem hann var myrtur, verið í dyravörslu á skemmtistaðnum Jungle og náð sér í mat á Mandí eftir vaktina.

Hann sagðist hafa heyrt af því á bílastæðinu við Landspítala, þar sem hann beið ásamt öðrum eftir fréttum af Armando, að Angjelin hefði snúið aftur til höfuðborgarinnar um kvöldið. Og þá hefði hann áttað sig á hver hefði verið þarna að verki.  Hann kannaðist ekki við að Armando hefði átt skotvopn eða  væri með skotvopn í bílnum sínum, eins og Angjelin fullyrti í skýrslutöku sinni á mánudag.

Verjandi Angjelin spurði hvort þeir hefðu verið fúlir út í Íslendinginn vegna leka á gögnum um að hann væri upplýsingagjafi lögreglu. Vitnið vildi ekki kannast við það og spurði á móti af hverju hann hefði þá átt að hringja í Íslendinginn og bjóða honum á sáttafund. Aldrei hefðu verið nein illindi milli þeirra og Íslendingsins. Hann gaf lítið fyrir samskipti sem verjandi birti og sýndi þá ræða um Íslendinginn og Angjelin. Hann sagði að það sem þar fór fram hefði ekki verið sagt af neinni alvöru og  kannaðist ekki við að þeir hefðu reynt innheimta einhverja sekt af Íslendingnum.

Verjandi Angjelins vildi vita hvað hefði verið meint með því þegar sögðust  ætla að kveikja í bíl Angjelins. Þetta var bara grín, sagði vitnið. Þegar verjandinn vildi vita af hverju þeir væru að grínast með eitthvað svona sagði vitnið að það væri vegna þess að Angjelin hefði verið að búa til eitthvað vesen. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV