Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ný stjórnarskrá enn skilyrði fyrir ríkisstjórnarmyndun

Mynd: RÚV / RÚV
Halldóra Mogensen, formaður Pírata, segir að flokkurinn muni eingöngu mynda ríkisstjórn með flokkum sem ætli að innleiða nýja sjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Þetta er í annað skipti sem flokkurinn setur þetta stefnumál skilyrði fyrir stjórnarmyndun, en það gerðu þau einnig í stjórnarmyndunarviðræðum árin 2016 og 2017.

Halldóra segir að með nýrri stjórnarskrá vísi þau í tillögur um nýja stjórnarskrá sem samþykktar voru í stjórnlagaráði 2012. En þau hafi ásamt Samfylkingunni lagt fram frumvarp um að haldið verði áfram með þá vinnu, frá því skilið var við hana árið 2013.

Hún telur þetta skilyrði Pírata ekki hafa staðið í vegi fyrir því að aðrir flokkar myndi með þeim ríkisstjórn, heldur hafi önnur mál orðið til þess þau hafi verið utan ríkisstjórnar.

„Þegar við tölum um nýju stjórnarskránna þá erum við að tala um stjórnarskránna sem gekk í gegnum eitt lýðræðislegasta ferli sem þekkist í heiminum, þegar kemur að skrifum á stjórnarskrá, og það er stjórnarskráin sem kemur frá stjórnlagaráði“ segir Halldóra.

Þetta er meðal þess sem kom í viðtali við Halldóru í Forystusætinu á RÚV í kvöld, en viðtalið má í heild sjá í spilaranum hér að ofan.

Á næstu dögum og vikum verður rætt við formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eru í framboði fyrir alþingiskosningarnar 25. september. Röðun þeirra var dregin af handahófi. Ítarlega umfjöllun um kosningarnar má finna á kosningavef RÚV, ruv.is/x21.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV